Innlent

Bera ekki ábyrgð á námsláni: „Maður horfir bjartsýnni á lífið i dag heldur en í gær“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Foreldrar mannsins voru ekki fyllilega upplýst um að hann hafði orðið gjaldþrota.
Foreldrar mannsins voru ekki fyllilega upplýst um að hann hafði orðið gjaldþrota. Vísir/Getty
„Maður horfir bjartsýnni á lífið i dag heldur en í gær,“ segir maður sem þarf samkvæmt dómi Héraðsdóms Vesturlands í dag ekki að bera ábyrgð á námsláni sonar síns hjá LÍN. Maðurinn hafði ásamt konu sinni, móður lántakans, gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir lán sem gefin voru út árið 2011 og 2012. Hann vildi ekki koma fram undir nafni.

„Málið er í raun og veru þannig að við fáum þessa kröfu frá LÍN,“ útskýrir maðurinn sem búsettur er á Vesturlandi. „Þeir vilja bara semja þannig að það gengur engan veginn upp fyrir okkur fjárhagslega. Þá skjótum við málinu til málskotsnefndar LÍN, þeir úrskurða þannig að við berum ekki ábyrgð.“

Stjórn LÍN, ósátt við úrskurð málskotsnefndarinnar, kýs þá að höfða mál en samkvæmt ákveðnum reglum réttarfars hér á landi verður lánasjóðurinn þá að höfða mál á hendur foreldrunum. „Við höfðum ekkert val,“ segir maðurinn annað en að fara í dómsmál við lánasjóðinn.

Sjá einnig: LÍN upplýsir átta þúsund manns um að þeir séu í ábyrgðum fyrir lánum 

Stjórn LÍN telji sig hafna yfir lög

Sonur hjónanna varð gjaldþrota en voru þau sem ábyrgðarmenn aldrei upplýst um það. Maðurinn segist í samtali við Vísi ekki hafa haft hugmynd um hvernig ástatt var fyrir syni hans fjárhagslega. Dómurinn fellur meðal annars hjónunum í hag með vísan til þessa.

„Í hnotskurn er málið það að stjórn lánasjóðsins telur að lög um ábyrgðarmenn eigi ekki við um þá. Og að þeim sé hreinlega heimilt að gera það sem þau vilja,“ segir maðurinn og vísar þar í lögbundna skyldu LÍN til að ráða ábyrgðarmönnum frá því að gangast undir ábyrgð á láni ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar.

LÍN framkvæmdi aldrei slíkt mat á syni hjónanna. 

Maðurinn segir dóminn ekki hafa komið á óvart en að þeim hjónum sé létt. „Þetta er náttúrulega alveg stórkostlegt,“ sagði hann nokkrum tímum eftir að dómur féll. „Þetta er reyndar ekki búið, málið fer klárlega upp í Hæstarétt.“

Dóm Héraðsdóms Vesturlands má lesa í heild sinni hér

Guðmundur Steingrímsson fór ásamt fjölskyldu sinni í mál þar sem hann taldi sig ekki eiga að bera ábyrgð á láni hjá LÍN.vísir/valli
Sjá einnig: Guðmundur segir dóminn með algjörum ólíkindum 

Staða ábyrgðarmanna óljós


Mál ábyrgðarmanna að námslánum hafa verið áberandi í umræðunni að undanförnu en lög um ábyrgðarmenn voru sett árið 2009.

Mál Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartrar framtíðar, vakti athygli snemma í febrúar á þessu ári en í því var hann og fjölskylda hans dæmd til þess að greiða lán sem faðir Guðmundar, Steingrímur Hermannsson, bar ábyrgð á.

Guðmundur sagði eftir að dómur féll að hann væri með ólíkindum. Forsendur voru því talsvert aðrar í þeim dómi en þeim sem féll í dag. Þó er ljóst að staða ábyrgðarmanna á námslánum hjá LÍN er ekki allskostar skýr.


Tengdar fréttir

„Verið að koma aftan að látnu fólki“

Aðalmeðferð í máli Lánasjóðs íslenskra námsmanna gegn erfingjum Steingríms Hermannssonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins, fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×