Innlent

Hvatningarverðlaun velferðarráðs afhent

Atli Ísleifsson skrifar
Vinningshafar.
Vinningshafar. Vísir/Reykjavíkurborg
Jónas Hallgrímur Jónasson og hælisleitendateymi Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða fengu afhent hvatningarverðlaun velferðarráðs Reykjavíkurborgar fyrr í dag.

Jónas Hallgrímur Jónasson fékk hvatningarverðlaun velferðarráðs 2014 í flokki einstaklinga. „Jónas hefur starfað lengi að málefnum utangarðsfólks og nú síðast verið forstöðumaður eða verkefnastjóri  Smáhýsanna.  Jónas hefur með viðmóti sínu og viðhorfum veitt einstaklingum sem eru utangarðs ráðgjöf og stuðning sem er til eftirbreytni. Hann hefur verið öðrum góð fyrirmynd og hefur tekið að sér að þjálfa fjölda starfsmanna í málefnum utangarðsfólks.  Jónas starfar af ástríðu og hefur skýra framtíðarsýn í málaflokknum.

Hælisleitendateymi Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða fékk hvatningarverðlaunin í flokki hópa eða starfsstaða. Í rökstuðningi valnefndar kemur fram að aðdáunarvert sé að fylgjast með þeim starfsmönnum sem starfa við móttöku hælisleitenda fyrir hönd borgarinnar.  Þeir hafi með góðum árangri þurft að setja sig inn í ólíkar aðstæður hælisleitenda og hafi þurft að vera lausnamiðaðir og sýna mikla útsjónarsemi til að koma til móts við þarfir hvers og eins.  Þetta starfsfólk sýnir öryggi í aðstæðum sem oft eru erfiðar og á milli þess ríkir mikil samstaða þegar á reynir. Þjónustan byggist á jákvæðni, virðingu og alúð.

Geðveikur fótbolti og fótboltaliðinu FC Sækó  fékk hvatningarverðlaunin í flokki verkefna.  Fótboltaverkefnið Geðveikur fótbolti og fótboltaliðið FC Sækó byrjaði í nóvember 2011 og er samstarfsverkefni velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, geðdeildar Landspítalans og Hlutverkaseturs.

Verkefnið felst í því að íbúum í búsetukjörnum fyrir geðfatlaða, notendum á geðsviði landspítalans og Hlutverkaseturs ásamt starfsfólki stendur til boða að æfa innanhúss fótbolta. Markmiðið er að efla heilsu og virkni notenda ásamt því að veita jákvæðan og uppbyggilegan félagslegan stuðning. Verkefnið fékk strax mjög góðar viðtökur og mættu  15-20 einstaklingar að jafnaði hvern einasta mánudag og eru enn að í dag. Það er skemmst frá því að segja að fótboltaliðið lagði land undir fót og fór til Skotlands og kynnti sér sams konar verkefni þar.  Sjálfstraust og gleði þátttakenda hefur aukist og á næsta ári stefnir liðið á að fara til Notts County í Englandi og kynnast áhugaverðu boltaúrræði þar. Mikill hugur er í mönnum og ætla þeir að gera heimildamynd um ferðina.

Markmiðið með hvatningarverðlaununum er að skapa hvetjandi vinnustaðamenningu og vekja athygli á gróskumiklu starfi í velferðarmálum Reykjavíkurborgar, auk þess að stuðla að aukinni nýbreytni  og þróunarstarfi. Valnefndin er skipuð fulltrúum velferðarráðs, skrifstofu velferðarsviðs, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og BHM. Í valnefnd vegna verðlauna fyrir árið 2014 voru: Björk Vilhelmsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir, Garðar Hilmarsson, Þórhildur Lilja Ólafsdóttir og Lóa Birna Birgisdóttir. Alls bárust nefndinni 24 tilnefningar sem er til marks um vel unnin störf á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Velferðarráð veitti í fyrsta sinn hvatningarverðlaun árið 2011 í því skyni að hvetja starfsmenn sviðsins og hafa þau verið veitt árlega síðan,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×