Innlent

Tvær skurðdeildir lokaðar vegna sjúkrahúsbakteríu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Unnið að því að hreinsa deildirnar en á meðan er ekki hægt að leggja inn sjúklinga.
Unnið að því að hreinsa deildirnar en á meðan er ekki hægt að leggja inn sjúklinga. Vísir/GVA
Tvær skurðdeildir eru lokaðar á Landspítalanum vegna sjúkrahúsbakteríu sem kom upp. Slíkar bakteríur eru ónæmar fyrir sýklalyfjum og erfitt er að hreinsa deildir af veirunni. Samkvæmt upplýsingum frá spítalanum eru 36 rúm auð vegna þessa.



„Við lokuðum fyrir viku síðan tveimur deildum,“ segir Lilja Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs, um málið. „Önnur deildin er tóm núna og á hinni eru núna átta sjúklingar.“



Óljóst er hver bar veiruna með sér á spítalann en bakteríur á borð við þá sem nú kom upp eru í daglegu umhverfi fólks. Almennt eru þær ekki hættulegar. „Þetta er bara hættulegt fólki sem eru mjög ónæmisbældir einstaklingar,“ segir Lilja



Hún segir að fyrir frískt fólk sé bakterían ekki hættulegt.



Þeir átta sjúklingar sem eru enn inni á annarri deildinni munu ljúka meðferð sinni þar. Unnið er að því að hreinsa deildina á meðan. „Við erum að verja framtíðarsjúklinga við að fá þetta, þegar þeir mega síst við því,“ segir hún.



Lilja segir að erfitt sé að eiga við sjúkrahúsbakteríur, ekki síst vegna húsnæðiskosts spítalans. Mikill samgangur sé meðal sjúklinga og til að mynda séu heilu gangarnir sem deila salerni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×