Innlent

Dómur þyngdur yfir manni sem veittist ítrekað að óléttri konu sinni

Sunna Karen sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn var fundinn sekur fyrir fimm líkamsárásir á hendur fyrrum sambýliskonu.
Maðurinn var fundinn sekur fyrir fimm líkamsárásir á hendur fyrrum sambýliskonu. vísir/gva
Hæstiréttur þyngdi í dag dóm yfir karlmanni sem fundinn var sekur í Héraðsdómi Norðurlands Eystra fyrir líkamsárásir og þjófnað á hendur fyrrum sambýliskonu sinni í október í fyrra. Var hann dæmdur í fimmtán mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða konunni 800 þúsund krónur.

Maðurinn var ákærður fyrir fimm líkamsárásir gegn konunni, stórfelldar ærumeiðingar í hennar garð og þjófnað með því að hafa í tvígang millifært í heimildarleysi peninga á sinn reikning í gegnum heimabanka hennar.

Setti hné í kvið konunnar sem gengin var 21 viku

Dómurinn taldi sannað að maðurinn hefði gerst sekur um líkamsárásirnar gegn konunni, sem hann hafði verið sýknaður af í héraðsdómi. Var hann meðal annars dæmdur fyrir að hafa í nóvember 2011 slegið í konuna, tekið hana hálstaki og sett hné í kvið hennar en hún var þá gengin rúma 21 viku með barn sitt og ákærða.

Mánuði síðar var honum gefið að sök að hafa slegið hana í andlit, ýtt henni í gólfið og tekið hana hálstaki. Þá veittist hann að henni fyrir framan heimili þeirra með því að slá hana með flötum lófa í andlitið inni í kyrrstæðri bifreið, elt hana úr bílnum er hún féll í jörðina, rifið í hár hennar og slegið hana. Þá var honum gefið að sök að hafa ítrekað sparkað í höfuð hennar og búk.

Sýknaður af ærumeiðingum

Þá var manninum gefnar stórfelldar ærumeiðingar í garð konunnar í hennar garð en var af því sýknaður. Taldi dómurinn ekki nægilega afmarkað hvernig maðurinn hefði almennt móðgað konuna og smánað.

Loks var hann sakfelldur fyrir þjófnað vegna einnar millifærslu, alls 60 þúsund krónur sem hann færði yfir á sinn reikning í febrúar 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×