Innlent

Átján mánaða fangelsi fyrir árás með hafnaboltakylfu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Vísir/GVA
Fimmtugur karlmaður var í Hæstarétti Íslands í dag dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir að hafa brotið bílrúðu með hafnaboltakylfu með þeim afleiðingum að ungur maður slasaðist alvarlega.

Rúðan brotnaði við höggið og glerbrot þeyttust í andlit mannsins sem hlaut alvarlega áverka á augum. Er maðurinn steig út úr bifreiðinni var hinn ákærði jafnframt sakaður um að hafa slegið manninn aftur með kylfunni.

Í dómnum segir að árásarmaðurinn hafi sakað unga manninn um að hafa stolið frá sér verkfærum og hjólbörðum fyrir um 600 þúsund krónur. Hann hafi jafnframt staðið í hótunum við unga manninn, meðal annars hótað honum líkamsmeiðingum og handrukkurum.

Ákærði neitaði sök en viðurkenndi að hafa mætt manninum á akstri í Hafnarfirði. Hann hafi því elt hann til þess að ræða við hann um ætlaðan þjófnað. Viðurkenndi hann að rúðan hafi brotnað en sagðist hafnaboltakylfuna ekki hafa komið við sögu. Hann ætti enga slíka.

Ungi maðurinn hlaut skurð á hornhimnu, varð blindur á vinstra auga og með tuttugu prósenta sjón á hægra auga. Óvíst er hvort hann muni endurheimta sjón, og ef svo verður að hve miklu leyti, að því er fram kemur í dómnum.

Hæstiréttur taldi vilja ákærða til verksins einbeitan og árásina fólskulega og var maðurinn því dæmdur til refsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×