Körfubolti

Ekkert félag hefur beðið lengur en Tindastóll

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viðar Ágústsson í leiknum þar sem Stólarnir tryggðu sér sæti í lokaúrslitunum.
Viðar Ágústsson í leiknum þar sem Stólarnir tryggðu sér sæti í lokaúrslitunum. Vísir/Stefán
Tindstóll spilar í kvöld sinn fyrsta leik í lokaúrslitum í fjórtán ár þegar liðið heimsækir ríkjandi Íslandsmeistara KR í DHL-höllina í Vesturbænum.

Leikurinn í kvöld verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 19.00. Leikurinn sjálfur hefst klukkan 19.15

Tindastóll var síðast í lokaúrslitunum árið 2001 þegar liðið tapaði 3-1 fyrir Loga Gunnarssyni og félögum í Njarðvík.

Stólarnir unnu samt síðasta útileik sinn í lokaúrslitum 2001 en þegar þeir spilltu sigurhátíð Njarðvíkinga með þriggja stiga sigri á Njarðvík 96-93 14. apríl þegar Njarðvíkingar gátu tryggt sér titilinn í Ljónagryfjunni.

Njarðvíkingar fóru síðan á Krókinn í næsta leik, 17. apríl 2001, unnu 25 stiga sigur og tóku Íslandsbikarinn með sér til baka.

Síðan eru liðnir rétt rúmur 171 mánuður eða alls 5116 dagar frá því að Tindastólsliðið stóð á stærsta sviði íslenska körfuboltans.

Með því að komast fyrst aftur í lokaúrslitin í ár, fjórtán árum síðar, eru Stólarnir orðnir það lið í þriggja áratuga sögu úrslitakeppninnar sem hefur þurft að bíða lengst á milli úrslitaeinvíga.

Tindastóll bætti með þessu met KR-inga, sem höfðu lengst allra, beðið í átta ár á milli tveggja úrslitaeinvíga sinna á tíunda áratugnum.

Haukarnir eiga reyndar möguleika á að bæta metið í næstu framtíð en nú eru liðin 22 ár síðan að Haukarnir spiluðu síðast um Íslandsmeistaratitilinn. Stólarnir skildu Haukana eftir í undanúrslitunum í ár.

Lengsta bið á milli úrslitaeinvíga:

14 ár - Tindastóll (2001-2015)

8 ár - KR (1990-1998)

7 ár - KR (2000-2007)

6 ár - Grindavík (2003-2009)

5 ár - Valur (1987-1992)

5 ár - Haukar (1988-1993)

4 ár - Njarðvík (2002-2006)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×