Innlent

Þriggja ára fangelsi fyrir að nauðga 16 ára stúlku

Birgir Olgeirsson skrifar
Dómur Héraðsdóms Suðurlands á Selfossi var staðfestur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands á Selfossi var staðfestur. Vísir/Pjetur
Hæstiréttur Íslands hefur staðfest þriggja ára fangelsisdóm yfir Ingólfi Þórði Möller sem var sakfelldur í Héraðsdómi Suðurlands fyrir nauðgun á sextán ára gamalli stúlku árið 2012.

Samkvæmt ákæru í málinu braut Ingólfur á stúlkunni aðfaranótt sunnudagsins 7. október í grasbala við skemmtistað á Selfossi. Ýtti Ingólfur stúlkunni niður í grasið og þröngvaði henni með ofbeldi til samræðis.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot Ingólfs úti á víðavangi beindist gegn sextán ára stúlku sem átti sér einskis ills von er hún fór í göngutúr með Ingólfi, sem var 20 árum eldri en stúlkan og hún treysti.

Stúlkan sagðist hafa hitt Ingólf þegar hún og vinir hennar fóru út að reykja víð skemmtistaðinn á Selfossi. Hún spjallaði við hann og í kjölfarið kysstust þau. Hún sagði manninn hafa beðið sig um að koma með sér í smá göngutúr og hafi þau gert það. Hún kvaðst hafa sagt honum að hún væri ekki að fara að sofa hjá honum. Ingólfur ýtti henni þá niður i grasið og nauðgaði henni.

Ingólfur neitaði sök í málinu og sagðist engin samskipti hafa átt við stúlkuna. Hann sagðist hafa verið inni á skemmtistaðnum allan tímann og ekkert farið út fyrr en hann hafi farið heim ásamt fylgdafólki sínu. Hann kannaðist ekki við að hafa hitt brotaþola en mögulega hefði hann hjálpað henni að leita að síma en hann gat ekki skýrt nánar frá þeim samskiptum.

Samkvæmt símagögnum hringdi vitni í stúlkuna á um hálf þrjú þessa nótt og sagðist stúlkan þá vera með strák á bak við hús. Samkvæmt dómnum var óumdeilt að sími Ingólfs tengdist síma stúlkunnar um þrjú umrædda nótt og þóttu símagögnin styðja frásögn stúlkunnar um atvikin.

Auk þriggja ára fangelsisdóms var Ingólfur dæmdur til að greiða stúlkunni eina milljón króna í bætur.


Tengdar fréttir

Þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Þrjátíu og átta ára karlmaður var í Héraðsdómi Suðurlands í dag dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að nauðga sextán ára stúlku á grasbala við skemmtistað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×