Innlent

„Ég vona að þau haldi áfram að berjast“

Sandra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
„Þrátt fyrir hindranir hafa þau stóra drauma, um að verða læknar, kennarar lögfræðingar eða flugmenn,“ segir Iðunn Ása Óladóttir en hún kynnti í dag niðurstöður rannsóknar á áhrifum valdeflingar á hóp heyrnarlausra.

Iðunn dvaldi í Namibíu árið 2012 og tók viðtal við 29 manns þar af 23 heyrnalausa einstaklinga til að komast að hvernig þau upplifðu stöðu sína gagnvart heyrandi fólki. Reiknað er með að 5% jarðarbúa eigi við við einhvers konar heyrnaskerðingu að stríða. Flestir þeirra búa í þróunarlöndum en ástæða þess er skortur á heilbrigðisþjónstu, bólusetningum, fátækt og fleira.

Á heimsvísu er Heyrnarlaust fólk líklegra til að vera ómenntað og atvinnulaust en heyrandi fólk. Aðstæður eru verstar í þróunarlöndum, meðal annars vegna lélegs menntakerfis, skorts á táknmálstúlkum, skorts á þekkingu á táknmáli og neikvæðs viðhorfs gagnvart heyrnarlausum.

Sumir þeirra sem Ása talaði við fæddust heyrnarlausir en sumir misstu heyrnina seinna á ævinni. Flest upplifðu þau erfiðleika í æsku meðal annars í skólakerfinu en sum áttu foreldra sem vissu ekki að til væru sérstakir skólar fyrir heyrnarlausa. Flestir sögðust vilja fá meiri menntun. Í Namibíu nær skólinn upp í 12. bekk en heyrnarlaust fólk fær bara að ljúka 10. Bekk. Einn viðmælandi Ásu vildi fá að ljúka 12. bekk en til þess þurfti hann að ná munnlegu prófi í ensku sem gefur að skilja að gekk ekki upp.

Iðunn segir að valdefling sé mikilvæg fyrir minnihlutahópa. „Þróunaraðstoð ætti að fela í sér að fjarlægja þá hluti sem hindra fólk í ná markmiðum sínum. Skortur á tungumáli veldur valdaójafnvægi fyrir heyrnarlausa, táknmál er valdeflandi og túlkaþjónusta sömuleiðis.“

Viðmælendur Iðunnar upplifðu skort á heyrnarlausum kennurum. Til að fá að kenna þarf háskólapróf en það er erfitt fyrir heyrnalaust fólk ef þau fá ekki að halda áfram í skóla eftir 10. Bekk. Viðmælendurnir sögðu að þeim fyndist mikilvægt að eiga heyrnarlausa fyrirmynd.

Þrátt fyrir að upplifa sig valdaminni en heyrandi segir Iðunn að viðmælendur hennar hafi verið bjartsýnir á framtíðina. „Ég vona að þau haldi áfram að berjast.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×