Innlent

Þriðjungur allra fanga situr inni fyrir fíkniefnabrot

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Flestir þeirra fanga sem sitja inni í fangelsum landsins afplána dóma fyrir fíknefnabrot eða þriðjungur. Hlutfallið hefur haldist svipað síðastliðinn áratug.

Stöð 2 óskaði eftir tölfræði hjá Fangelsismálastofnun yfir flokkun brota þeirra fanga sem eru í afplánun í fangelsum landsins.

Hinn 20. apríl sl. voru voru 11 prósent fanga að afplána dóma vegna þjófnaðar og umferðarlagabrota, 17 prósent fyrir auðgunarbrot og skjalafals, 18 prósent fyrir ofbeldisbrot, 10 prósent fyrir manndráp eða manndrápstilraunir og 12 prósent fyrir kynferðisbrot. Langflestir þeirra sem eru í afplánun eru að afplána dóma fyrir fíkniefnabrot eða 29 prósent.

Eins og sést á þessari tölfræði (sjá mynskeið með frétt) fyrir árin 2000-2013 hefur hlutfall þeirra sem afplána dóma fyrir fíknefnabrot verið tiltölulega jafnt í gegnum árin en hlutfallið hefur rokkað frá 25 - 35 prósentum á undanförnum 15 árum.  Hæst var hlutfallið árið 2010 eða 34,7 prósent.

Varnaðaráhrif þyngri refsinga takmörkuð

Sífellt þyngri fangelsisdómar fyrir innflutning, dreifingu og sölu fíkniefna hafa ekki skilað sér í færri afbrotum í þessum brotaflokki. Þetta þýðir að varnaðaráhrif þyngri dóma þegar fíkniefnabrot eru annars vegar eru afar takmörkuð.

dr. Helgi Gunnlaugsson prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands segir að breyta þurfi um nálgun þegar kemur að refsingum fyrir fíkniefnabrot.

„Rannsóknir sýna með skýrum hætti að þyngri dómar hafa ekki skilað sér úr þeim vanda sem fíkniefnin valda í samfélaginu. Ég held að við eigum að taka mið af þessum rannsóknum og taka á þessum vanda með öðrum hætti en með þungum refsingum fyrir þessi brot,“ segir Helgi.

Hann segir að hægt væri að ná þessu markmiði með hægfara skrefum.

„Eitt skrefið væri fólgið í því að sleppa mönnum út eftir afplánun á helmingi refsingar. Fíkniefnabrot eru þannig í dag að menn þurfa að sitja af sér tvo þriðju hluta refsingar. Breyting á þessu myndi strax minnka álag í fangelsiskerfinu. Annað skref væri breytt skilgreining á fíkniefnabrotum, þ.e. að skilgreina þessi brot sem auðgunarbrot í stað þess að skilgreina þetta sem almannahættu eða út frá skaðsemi efnanna,“ segir Helgi.

Ef þessi brot væru skilgreind sem auðgunarbrot myndi það gera dómstólum kleift að dæma vægari refsingu fyrir brotin en nú er. Vegna dómvenju sem hefur skapast varðandi ákvörðun refsingar í stórfelldum fíkniefnabrotum geta dómstólar ekki að óbreyttum lögum tekið upp vægari refsingar í þessum brotaflokki. Til þess þyrfti atbeina löggjafans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×