Enski boltinn

Rooney kveikti í United-liðinu með þrumuræðu fyrir Manchester-slaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Vísir/Getty
Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, fær hrós frá félögum sínum í liðinu fyrir ræðuna sem hann hélt í klefanum fyrir 4-2 sigur liðsins á nágrönnunum í Manchester City.

Daley Blind, leikmaður Manchester United og hollenska landsliðsins, talar um þessa ræðu Rooney í viðtali við Daily Mail.

„Hún hitti beint í mark. Allir voru með það á hreinu hversu mikilvægur þessi leikur var. Ekki aðeins vegna rottuhlaupsins í baráttunni um efstu sætin heldur einnig vegna þess að liðið var búið að tapa fjórum derby-leikjum í röð," sagði Daley Blind.

„Wayne Rooney talaði um þetta í klefanum og það voru allir í liðinu að hugsa um þessa staðreynd þegar þeir stigu inn á grasið. Það sáu allir að við vorum að berjast fyrir hvern annan," sagði Blind.

„Við gátum kannski spurt okkur sjálfa eftir fyrstu fimm mínúturnar: Hvað gerðist? En eftir að við fengum á okkur mark þá komumst við í gang og spiluðum vel. Það var magnað að hafa stuðningsmennina með okkur," sagði Blind.  City komst í 1-0 í upphafi en United svaraði með fjórum mörkum áður en City-liðið skoraði lokamark leiksins.

Blind segir að liðið hafi alla burði til þess að vinna ensku deildina á næsta ári en það sem skiptir öllu máli er að tryggja sig inn í Meistaradeildina. Næsti leikur Manchester United er síðan á móti toppliði Chelsea um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×