Skoðun

Öflugur vísindamaður til forystu

Fyrri umferð kosninga nýs rektors Háskóla Íslands er að baki en enginn frambjóðandi fékk meirihluta atkvæða. Jón Atli Benediktsson, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði og aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands, hlaut flest atkvæði og litlu munaði að hann færi með sigur af hólmi.

Frá námsárum sínum hefur Jón Atli skarað fram úr í rannsóknum og kennslu og hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga. Hann hóf störf hjá Háskóla Íslands árið 1991 og hefur verið einn afkastamesti vísindamaður skólans; eftir hann liggja meira en 300 fræðigreinar í virtum vísindaritum og bókakaflar sem mikið er vitnað í á alþjóðavettvangi. Á tímum sóknar Háskólans í meistara- og doktorsnámi kom því ekki á óvart að núverandi rektor skyldi sækjast eftir starfskröftum Jóns Atla til að verða aðstoðarrektor vísinda og kennslu og forstöðumaður Miðstöðvar framhaldsnáms við HÍ.

Háskóli Íslands hefur tekið miklum stakkaskiptum á síðustu árum með fleiri námsleiðum og aukinni áherslu á rannsóknir og nám á meistara- og doktorsstigi. Fjárveitingar hafa ekki haldið í við aukinn nemendafjölda en þrátt fyrir þaðhefur tekist að varðveita vísinda- og kennslustarf innan skólans. Hér hefur framlag Jóns Atla vegið þungt og státa fáir af jafn mikilli reynslu, framsýni og getu til þess leiða skólann fram á veginn.

Samhliða starfi aðstoðarrektors hefur Jón Atli áfram sinnt kennslu í rafmagns- og tölvuverkfræði, leiðbeint doktorsnemum og verið virkur í rannsóknum.  Hann hefur sinnt ritstjórnarstörfum fræðirita í fjarkönnun, stýrt visindaráðstefnum, sinnt starfi sem forseti faggreinahóps um fjarkönnun hjá alþjóðasamtökum rafmagnsverkfræðinga (IEEE), verið eftirsóttur fyrirlesari á alþjóðavísu og frumkvöðull við stofnun fyrirtækja í nýsköpun. Hér er því á ferðinni vísindamaður af heimsklassa með reynslu af því að færa akademíska þekkingu og rannsóknir við Háskóla Íslands yfir á hagnýtt svið. Í vinnu sinni með nemendum er leiðarljós Jóns Atla stuðningur í orðum og verkum, hvort sem leið nemenda liggur til frekara náms, til starfa á almennum vinnumarkaði, eða til stofnunar frumkvöðlafyrirtækja.

Í kjöri nýs rektors Háskóla Íslands fer best á því að frambjóðendur veiti kjósendum innsýn í bakgrunn sinn og stefnumál sem þeir hyggjast setja á oddinn. Það hefur Jón Atli gert án þess að hnýta í meðframbjóðendur sína. Jón Atli er vandaður maður með þekkingu, reynslu og hæfileika sem munu halda áfram að vera skólanum til framdráttar, hljóti hann brautargengi. Jón Atli gengur hreint til verks og við skorum á starfsmenn og stúdenta við Háskóla Íslands að tryggja honum örugga kosningu í seinni umferð rektorskjörs, mánudaginn 20. apríl næstkomandi.






Skoðun

Sjá meira


×