Skoðun

Snúum bökum saman – Jón Atla fyrir Háskóla Íslands

Kristinn Andersen skrifar
Það var ánægjulegt að sjá staðfestingu á þeim víðtæka stuðningi sem Jón Atli Benediktsson nýtur innan Háskóla Íslands þegar úrslit úr fyrri umferð rektorskosninga lágu fyrir á mánudag.

Virk þátttaka Jóns Atla í rannsóknum og kennslu

Af verkum Jóns Atla og kynnum til margra ára mæli ég heils hugar með honum sem næsta rektor Háskóla Íslands. Samhliða stjórnunarstörfum, sem honum hafa verið falin innan Háskólans, hefur hann áfram sinnt þeim mikilvægu þáttum í starfi prófessors sem eru rannsóknir og kennsla. Allt til þessa dags er hann í hópi öflugustu starfsmanna Háskólans hvað varðar ritvirkni og rannsóknir. Þá hafa sjö doktorsnemar lokið prófi undir handleiðslu hans frá árinu 2007. Jafnframt sinnir hann kennslu nemenda í grunnnámi og meðan rektorskjör er á næsta leiti tekur hann þann tíma sem þarf til að ljúka kennslu nemenda sinna á fyrsta ári. Það er mikilvægt að rektor hafi frá fyrstu hendi reynslu af þeim störfum sem Háskólinn byggir á og búi þannig að góðum skilningi á þörfum starfsfólks og nemenda á öllum stigum náms.

Jón Atli og tengsl Háskólans við samfélagið

Í störfum mínum um árabil við þróun og tæknirannsóknir utan Háskólans lágu leiðir okkar Jóns Atla iðulega saman, þar sem hann beitti sér fyrir auknum tengslum Háskólans við atvinnulífið. Enn fremur áttum við gott samstarf í Vísinda- og tækniráði þar sem ég sat um sinn, en þar hefur hann unnið ötullega fyrir Háskólann og rannsóknasamfélagið. Aðkoma hans að viðfangsefnum er lausnamiðuð, hann er ráðagóður, hefur skýra framtíðarsýn og með honum er gott að starfa. Það var fyrir tilstuðlan Jóns Atla að ég tók að mér verkfræðikennslu og umsjón með nemendaverkefnum samhliða öðrum störfum og gekk svo að fullu til starfa við Háskóla Íslands, sem hefur verið mér ánægjulegt og gefandi. Þannig hefur Jón Atli stuðlað að auknum tengslum Háskólans við samfélagið og eflt skilning og hag beggja af þeim tengslum.

Viðurkenningar Jóns Atla á alþjóðlegum vettvangi

Jón Atli hefur verið valinn rafmagnsverkfræðingur ársins, sem er sameiginleg viðurkenning Verkfræðingafélags Íslands og alþjóðlegu verkfræðisamtakanna IEEE. Hann hefur verið virkur í faglegu starfi, fræðistörfum, kennslu og með doktorsnemendum, og hefur hlotið viðurkenningar á sviði sínu á alþjóðlegum vettvangi sem hérlendis.

Næstkomandi mánudag er tækifæri okkar til að sýna styrk Háskóla Íslands og sameinast um kjör Jóns Atla Benediktssonar í starf rektors.




Skoðun

Sjá meira


×