Innlent

Liðsmenn FSu biðjast afsökunar á ummælum um barnaníð

Bjarki Ármannsson skrifar
Fjölbrautaskóli Suðurlands.
Fjölbrautaskóli Suðurlands. Vísir/Egill Bjarnason
Liðsmenn MORFÍs-liðs Fjölbrautaskóla Suðurlands hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þeir biðjast afsökunar á ummælum sem féllu í keppni við Kvennaskólann í gærkvöldi. Líkt og Vísir greindi frá í morgunfór einn liðsmaður FSu með hlutverk Steingríms Njálssonar, dæmds kynferðisafbrotamanns í ræðu sinni.

Stjórn MORFÍs fordæmdi í kjölfarið málflutning liðsins, en í tilkynningu til Vísis segja liðsmenn að ætlunin hafi aldrei verið að særa neinn. Tilkynningin í heild sinni er birt hér fyrir neðan.

Við undirrituð biðjumst afsökunnar á þeim ummælum sem féllu að hálfu liðs FSu í keppni á milli Fjölbrautaskóla Suðurlands og Kvennaskólans í Reykjavík þann 19. mars síðastliðinn. Það var alls ekki ætlunarverk okkar að gera grín að nauðgunum, barnaníð, morðum eða öðru glæpsamlegu athæfi. Við hörmum ef fólk hefur tekið okkar málflutningi sem gríni. Það var ekki markmið keppninnar að hæðast að svo alvarlegum málefnum sem þessum. Við hörmum að flutningur okkar hafi sært tilfinningar áhorfenda, dómara, andstæðinga eða annara einstaklinga.

Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands biðst afsökunar á framsetningu málefnisins í þessari keppni, og sér eftir þessu atviki. Ætlun okkar var aldrei að særa neinn eða gera grín af svo alvarlegu málefni sem þessu. Ræðumaður sjálfur biðst einnig afsökunar á framferði sínu, þessi ræða var ekki viðeigandi í  MORFÍs  né annarsstaðar. Við hörmum einnig að stjórn MORFÍs hafi séð sig knúna til að fordæma mál okkar á samfélagsmiðlum, sem leiddi til þess að fjölmiðlar tóku málið upp.

Dómgreindarleysi okkar var mikið og við vonum að það hafi ekki áhrif á skólann okkar, fjölskyldur, nemendafélag eða neinn annan sem tengist okkur.


Við biðjumst innilegrar afsökunar og viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hindra að svona lagað endurtaki sig.

Virðingarfyllst,

Dóróthea Ármann, liðsstjóri

Elsa M. Jónasdóttir

Ívar M. Garðarsson

Ragnheiður I. Sigurgeirsdóttir

Símon Geir Geirsson, þjálfari liðs FSu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×