Handbolti

Aron Kristjánsson: Því miður er Óla-ævintýrið búið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson, þjálfari KIF Kolding.
Aron Kristjánsson, þjálfari KIF Kolding. Vísir/Daníel Rúnarsson
Aron Kristjánsson, stýrði danska liðinu KIF Kolding til 23-21 sigurs á RK Zagreb í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í handbolta í dag en þessi tveggja marka sigur dugði ekki danska liðinu.

KIF Kolding þurfti að vinna upp fimm marka forskot frá því í fyrri leiknum í Zagreb og það tókst ekki. Króatarnir eru því komnir áfram í átta liða úrslitin.

„Þetta var ekki nóg að það er mjög svekkjandi. Byrjunin á bæði fyrri og seinni hálfleik í fyrri leiknum í Zagreb var mjög slök. Við erum níu mörkum undir eftir tuttugu mínútur þar en náðum að vinna síðustu 40 mínúturnar með fjórum mörkum og það var alveg hægt að vinna með fimm marka tap," sagði Aron Kristjánsson við Garðar Örn Arnarson eftir leikinn.

„Við trúðum á það að við gætum komist áfram. Við vorum að spila mjög góða vörn, eiginlega allan leikinn. Það vantaði hinsvegar aðeins fleiri varða bolta í fyrri hálfleik og svo vorum við að klúðra mjög góðum færum þegar við vorum þremur mörkum yfir í seinni hálfleiknum," sagði Aron.

„Við vorum alltaf að spila okkur í færi í yfirtölunni en klúðruðum ákjósanlegum færum. Við þurfum að vera skarpari í að skora úr þeim færum," sagði Aron. Ólafur Stefánsson spilaði með KIF Kolding í þessum leik en verður hann áfram?

„Við vonuðumst til þess að hann myndi spila í næstu umferð með okkur en það tókst ekki. Við töpuðum og hann má ekki spila með okkur í deildinni. Hann mátti bara spila í Meistaradeildinni og því miður er það ævintýri búið. Við vorum rétt að koma honum í gang," sagði Aron.

„Hann kemur inn í erfiðar aðstæður í þessum leikjum. Hann kom þá fyrst inn í fyrri hálfleiknum þegar ekkert var að virka hjá liðinu. Hann kom síðan inn síðasta korterið þar sem mér fannst hann gera góða hluti, kom inn með ró, skoraði mark og stóð vörnina ágætlega," sagði Aron um frammistöðu Ólafs í fyrri leiknum  en það má sjá allt viðtalið við Aron hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×