Innlent

Ætlar að flytja vegna skotárása í Gautaborg

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sænska lögreglan leitar nú tveggja árásarmanna sem skutu tvo til bana í Gautaborg í gærkvöldi og særðu á annan tug. Íslensk kona búsett í grennd við árásarstaðinn segir að mikil hræðsla hafi gripið um sig á svæðinu. 

Árásin var gerð á veitingastað í Biskopsgården-hverfinu í Gautaborg í gærkvöld, þar sem fjöldi fólks var að horfa á fótboltaleik í sjónvarpinu. Að sögn sjónarvotta ruddust tveir grímuklæddir menn inn á staðinn og hófu skothríð með þeim afleiðingum að tveir menn á þrítugsaldri létust, auk þess sem fimmtán særðust, þar af þrír alvarlega. Árásarmannanna er nú leitað en þeim tókst að flýja af vettvangi.

Lög­regla úti­lok­ar að um hryðju­verka­árás hafi verið að ræða, en telur nær öruggt að árásin tengist glæpagengjum sem hafa verið umsvifamikil í þessu hverfi. Unnur Edda Hjörvar býr nálægt veitingastaðnum þar sem árásin átti sér stað, og hefur margoft setið þar sjálf. Hún segist vera skelfingu lostin eftir atburðina, þó hún hafi áður orðið vör við glæpagengi á svæðinu.

„Ég fór þarna á leiðinni í vinnuna og þá var lögreglan út um allt ennþá, og það lá látinn maður á torginu í alla nótt. Þetta er bara hræðilegt og öllum líður mjög illa,“ segir hún.

Unnur segir fólki mjög brugðið og ætlar hún að flytja vegna árásarinnar, eftir að hafa búið í hverfinu í fjórtán ár.

„Já ég er búin að ákveða það, mér var mjög brugðið. Ég hef aldrei verið hrædd hérna fyrr en núna,“ segir hún.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×