Innlent

Rúta með skólabörnum valt í Hvalfirði

Samúel Karl Ólason skrifar
Rútan er sögð hafa oltið á litlum hraða.
Rútan er sögð hafa oltið á litlum hraða. Vísir/Egill
Rúta á vegum Skákakademíu Reykjavíkur og Skákdeildar Fjölnis valt á hliðina nærri Hótel Glym í Hvalfirði á tólfta tímanum í morgun. 30 börn og þrír fullorðnir voru í rútunni sem var á leið til Vatnsskógs þar sem Skákdeild Fjölnis og Skákakademían eru með skákbúðir fyrir börn á grunnskólaaldri.

Á vef Skessuhorns segir að sjúkrabílar, slökkviliðsbíll og fjórhjól hafi verið send á vettvang. Mikil hálka er á svæðinu. Fjórir sjúkrabílar fluttu slasaða á Sjúkrahús, en aðrir verða fluttir til Reykjavíkur. Ekki er talið að alvarleg slys hafi orðið á fólki.

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu segir að enginn hafi slasast alvarlega en að fjórir hafi verið fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Björgunarfélag Akraness var kallað á staðinn og aðstoðar á slysstað við að ferja börn frá Hótel Glymi og niður í aðra rútu, sem bíður þess að flytja þau til Reykjavíkur.

Í tilkynningu á vef Skákakademíunnar segir að rútan hafi verið á leið í skákbúðir Fjölnis og að allir séu heilir á húfi. Hætt hefur við búðirnar um helgina og unnið er það að koma krökkunum heim. Farið verður með krakkana í Rimaskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×