Innlent

Stöðvuðu hópslagsmál í Mosfellsbæ

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan segir mikla ölvun hafa verið í miðborginni í nótt.
Lögreglan segir mikla ölvun hafa verið í miðborginni í nótt. Vísir/Kolbeinn Tumi
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð í Tangahverfi í Mosfellsbæ í nótt, þar sem fimm karlar slógust. Mennirnir hættu þó slagsmálunum þegar lögreglu bar að garði og enginn þeirra vildi tjá sig um hvað hefði gert. Mennirnir voru nokkuð lemstraðir og voru allir af erlendu bergi brotnir.

Í dagbók lögreglunnar segir einnig frá því að tæplega fimmtugur karl hafi verið handtekinn fyrir utan skemmtistað í Hafnarfirði. Lögreglan hafði fengið tilkynningu um líkamsárás, en maðurinn var sagður hafa slegið konu og gisti hann fangageymslu í nótt.

Þá var karlmaður á þrítugsaldri handtekinn við skemmtistað í Hafnarstræti, þar sem hann hafði ítrekað ráðist á dyraverði. Hann var handtekinn og færður í fangageymslu. Engan dyravörð sakaði þó.

Skömmu fyrir fimm í nótt fékk lögreglan tilkynningu um mann á gangi á Laugarvegi, með höfuðkúpugrímu og hníf í hendi. Þegar lögregluþjónar komu á vettvang var maðurinn ekki með hníf en í fórum hans fannst lítilræði af fíkniefnum.

Í dagbók lögreglu segir að nokkur erill hafi verið í miðborginni í nótt vegna ölvunar. Ung kona, sem talið er að sé erlendur ferðamaður, sefur ölvunarsvefni í fangaklefa. Hún var ekki með skilríki og gat ekki upplýst lögreglumenn um hver hún væri eða hvar hún héldi til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×