Viðskipti innlent

Lítill gjaldeyrisforði veldur haftahópi áhyggjum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hjá framkvæmdahópi um afnám gjaldeyrishafta er litið svo á að það sé áhyggjuefni að hreinn tiltæktur gjaldeyrisforði ríkisins sé aðeins 53 milljarðar króna. Ekki sé til gjaldeyrir til að skipta út krónueignum slitabúa föllnu bankanna án þess að taka lán fyrir því. Seðlabankinn hefur aðgang að jafnvirði 530 milljarða í formi lána.

Stærsta vandamálið sem tengist slitabúum föllnu bankanna snýr að krónueignum þeirra sem ógna fjármálastöðugleika á Íslandi. Slitabú Kaupþings á 162,5 milljarða í krónum, samkvæmt síðasta birta fjárhagsyfirliti. Inni í þeirri fjárhæð er eignarhluturinn í Arion banka. Glitnir á 319 milljarða í krónum og í þeirri fjárhæð er eignarhluturinn í Íslandsbanka. Þá eru aflandskrónur í eigu erlendra einstaklinga og lögaðila um 300 milljarðar. Samtals 781,5 milljarðar króna.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans er 530 milljarðar. Hreinn gjaldeyrisforði, þegar lánin hafa verið dregin frá, er jafnvirði aðeins 53 milljarða króna. Í framkvæmdahópi um afnám hafta hafa heyrst áhyggjuraddir um hversu lítill hreinn gjaldeyrisforði sé, jafnvel þótt hann hafi aukist og farið úr neikvæðri stöðu á síðasta ári.

Fram kom í máli Sigríðar Benediktsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika Seðlabankans, þegar ritið Fjármálastöðugleiki var kynnt fyrir tæpu ári að undirliggjandi viðskiptajöfnuður næstu ára dygði ekki til þess að leysa út krónueignir slitabúa föllnu bankanna, þ.e. skipta þeim í gjaldeyri.

Gjaldeyrisforðinn ekki notaður til að leysa út krónustöður

„Það hefur ekki staðið til að nota gjaldeyrisvaraforða landsmanna til að leysa út þessar krónustöður og það er það sem vinna vegna losunar hafta gengur meðal annars út á. Hins vegar er það svo allt annað mál að við þurfum til lengdar að vera með meiri forða sem er ekki skuldsettur með erlendum lánum og við erum að þokast þangað,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Blasir þá ekki við niðurfærsla þessara krónueigna?

„Það er ein leið, önnur leið er að það komi annar gjaldeyrir inn (í þjóðarbúið) sem er ekki í þessum forða,“ segir Már Hann segist þar vera að vísa í kaup á þessum krónueignum fyrir gjaldeyri og kaupandinn skuldbindi sig til að halda þeim í ákveðinn tíma þrýsti ekki á að skipta þeim. Þetta sé þó fremur ósennilegt það sem svo háar fjárhæðir krónueigna sé að ræða.

„Væntanlega verður þetta, eins og svo margt í lífinu, einhvers konar blönduð leið,“ segir Már. Hann segist vongóður um að það dragi til tíðinda um afnám hafta á þessu ári.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×