Innlent

Uppákoma í ræktun veldur sveppaskorti í verslunum landsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Íslendingar neyta sveppa í töluverðum mæli.
Íslendingar neyta sveppa í töluverðum mæli. Mynd/Íslenskt.is
„Það hafa verið smá tímabundin vandræði en við erum að komast á beinu brautina,“ segir Svavar Ottósson, verkefnastjóri hjá Flúðasveppum. Sveppaskortur í verslunum landsins hefur gert vart við sig undanfarna viku og fjölmargir farið fýluferð út í búð og komið sveppalausir heim.

„Það var smá uppákoma í ræktuninni hjá okkur sem við þurfum að laga,“ segir Svavar. Svepparæktun sé þannig að yfir henni þurfi að vaka og sofa. Framleiðsluferill eins svepps er um níu vikur. Ræktunin sé viðkvæm og megi lítið út á bera. Komi eitthvað upp á þarf að rekja vandamálið aftur í tímann. Svavar vill ekki fara nánar út í það hvað hafi komið upp í ræktuninni.

„Annars er þetta að lagast allt saman. Fólk fær að fá íslensku sveppina sína aftur.“

Georg Ottósson, sveppabóndi á Flúðum og bróðir Svavars.Mynd/Íslenskt.is
80 sveppir á mann

Flúðasveppir framleiða um 600 tonn af sveppum árlega af þeim 800 tonnum sem eru á markaði. Hann telur hlutdeild Flúðasveppa á markaðnum vera nálægt 80 prósent. Hann nefnir einn annan íslenskan framleiðanda sem einbeiti sér að sérstökum sveppum - ekki beint matarsveppum. Annars er um að ræða innflutta sveppi að mestu frá Hollandi.

Svavar telur að framleiðni Flúðasveppa undanfarna viku hafi fallið um mögulega 30 prósent. Því sé alls ekki svo að engin framleiðsla sé í gangi þó svo að sveppir séu víða uppseldir. Má draga þá ályktun að Íslendingar séu sveppasjúkir?

„Þú sérð það. Við borðum um 800 tonn af matarsveppum á ári. Hver sveppur er um 30 grömm,“ segir Svavar. Lauslegur útreikningar blaðamanns leiðir í ljós að það svari til að hver Íslendingur borði um 80 sveppi á ári.

Svavar segir að góð uppskera sé handan við hornið enda góð ræktun í gangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×