Skoðun

Börn og sjaldgæfir sjúkdómar

Sigurður Jóhannesson skrifar
Þann 28. febrúar er árlega haldið uppá alþjóðlegan dag sjaldgæfra sjúkdóma.  Þessi dagur var fyrst haldinn hátíðlegur árið 2008. Stofnað var til dagsins í þeim tilgangi að vekja athygli á sjaldgæfum sjúkdómum, bæði til að uppfræða almenning en einnig embættismenn sem taka ákvarðanir sem geta haft mikil áhrif á líf sjúklinga sem greindir eru með sjaldgæfa sjúkdóma.

Í Evrópu er skilgreiningin á sjaldgæfum sjúkdómi þannig að færri en 1 af hverjum 2000 séu greindir með sjúkdóminn. Í Bandaríkjunum er skilgreiningin þannig að það séu færri en 200.000 manns greindir með sjúkdóminn á hverjum tíma.

Í Evrópu eru taldir yfir 6000 sjúkdómar sem falla undir skilgreininguna sjaldgæfir sjúkdómar og í Evrópusambandinu eru fleiri en 30 milljón manns greindir með sjaldgæfan sjúkdóm.  Sjaldgæfir sjúkdómar er sem sagt ekki svo sjaldgæfir þrátt fyrir allt.

Oft eru engar árangursríkar meðferðir við sjaldgæfum sjúkdómnum sem eykur á sársauka og þjáningar sjúklinganna og fjölskyldna þeirra. Skortur á vísindalegri þekkingu og gæði upplýsinga um sjúkdómana er gjarnan ástæða fyrir seinkun greiningar.  Takmarkað bolmagn heilbrigðisþjónustunnar hér á landi leiðir af sér að besta mögulega meðferð og umönnun er ekki sjálfgefin ef um sjaldgæfan sjúkdóm er að ræða.

Vanvirkni velferðarþjónustunnar leiðir til mikilla félagslegra og fjárhagslegra byrða á sjúklinginn og fjölskyldu hans.  Það er því miður staðreynd að á Íslandi lenda þessir einstaklingar oft milli skips og bryggju í velferðarkerfinu.

Sú jákvæða þróun hefur átt sér stað hér á landi að í Reykjavík er starfrækt stuðningsmiðstöðin Leiðarljós sem sérhæfir sig í alhliða stuðningi við allar fjölskyldur í landinu sem eiga börn með sjaldgæfa alvarlega langvinna sjúkdóma.

Með stofnun Leiðarljóss var mikilvægt skref stígið í að bæta þjónustu við fjölskyldur barna með sjaldgæfa sjúkdóma.  Þannig varð til staður sem veitir  alhliða stuðning, upplýsingar og leiðsögn um kerfið.  Leiðarljós kynnir fyrir foreldrum þau úrræði sem eru í boði og veitir aðstoð við að útvega þau og stuðlar þannig að því að fjölskyldan fái viðunandi þjónustu, svo hægt sé að skapa henni bestu mögulegu skilyrði til góðra lífsgæða, þrátt fyrir veikindi barnsins.

Leiðarljós hefur nú þegar sannað gildi sitt fyrir foreldra barna með sjaldgæfa sjúkdóma og hægt væri að koma á fót sambærilegri þjónustu fyrir aðra hópa sem og fullorðna með sjaldgæfa sjúkdóma ef áhugi væri fyrir hendi.

Þessa dagana er Leiðarljós að leita til stjórnvalda um að efna gefið vilyrði um styðja við reksturinn og tryggja þannig áframhaldandi stuðning við foreldra barna með alvarlega sjaldgæfa sjúkdóma.

Hér með skora ég á stjórnvöld að tryggja áframhaldandi rekstur Leiðarljóss.

Með vinsemd og virðingu, Sigurður Hólmar Jóhannesson,

Faðir barns með sjaldgæfan sjúkdóm og situr í stjórn Leiðarljóss.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.