Skólahald á Hlíðarhúsi i Óslandshlíð í Skagafirði – gagnrýni á minnismerki Ingibjörg Kristín Jónsdottir skrifar 13. febrúar 2015 19:05 Við austanverðan Skagafjörð stendur falleg sveit að stórum hluta meðfram ánni Kolku. Austan við Kolkuós stendur gamalt samkomuhús og skóli á mel. Saga þessa húss er saga Óslandshlíðar sveitarinnar sem liggur undir Óslandshlíðarfjöllum við austanverðan Skagafjörð og byrjar þar sem Höfðaströnd lýkur rétt innan við Gröf á Höfðaströnd. Fyrsti bær að norðan er Miðhús, og innsti bær að sunnan er Hlíðarendi. Óslandshlíð lýkur við Sleitubjarnarstaði, eða í daglegu tali nefnt Sleitustaðir. Sveitin er kennd við bæinn Ósland sem liggur utarlega í hlíðinni þar sem undirrituð sleit barnsskónum. Mér þykir undurvænt um þessa sveit þar sem ég á mínar rætur. Húsið sem ég nefndi í upphafi var nefnt Hlíðarhús og þar gekk ég í barnaskóla til 12 ára aldurs, eða til ársins 1970. Eftir það lá leiðin í burtu til frekari starfa og skólagöngu sem endaði árið 2012 með doktorsgráðu í menntunarfræðum frá St. John´s University í New York. Fyrir tíu árum síðan var settur upp minnisvarði um farskóla á Hlíðarhúsinu með styrk frá menntamálaráðuneytinu. Átthagafélag Óslandshlíðar stóð fyrir uppsetningunni og undir styrkveitinguna skrifaði Tómas Ingi Olrich þáverandi menntamálaráðherra og ári seinna 2004 afhjúpaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ,sem þá hafði tekið við af Tómasi Inga, minnisvarðann. Það er þessi minnisvarði og meðhöndlun ráðuneytisins á þessu máli sem er hvatinn til þessarar greinar. Ég gagnrýni harðlega menntamálaráðuneyti Íslands fyrir hvernig staðið var að þessu á allan hátt. Ég ætla núna að rekja sögu Hlíðarhússins og færa rökum fyrir því að minnimerki um farskóla á Hlíðarhúsi frá 1903 til 1967 er byggt á misskilningi heimamanna og vegna óvandaðra vinnubragða íslenskra stjórnvalda. Árið 1898 var bindindisfélagið Tilreyndin (eða Tilreynd, það er nokkuð á reiki hvort það er kallað og mér hefur ekki tekist að finna út hvort er réttara) stofnað. Aðalhvatamaður þess var Rögnvaldur Þorleifsson bóndi á Óslandi og langalangafi minn. Jóhann Ólafsson bóndi í Miðhúsum skrifaði sögu félagshalds í Óslandshlíð frá upphafi og fram að 1950 og eru skrif hans varðveitt á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga. Það fóru sterkir straumar frelsisbaráttu í mörgum myndum um evrópsk lönd á nítjándu öldinni. Þótt Ísland liggi allnokkuð frá meginlandi Evrópu varð það ávallt fyrir áhrifum þaðan. Nítjánda öldin var öld baráttu almúgans fyrir breyttum kjörum, hinn frjálsi bóndi varð m.a. tákn uppbyggingar norsks samfélags þar sem aldrei hafði verið aðall en stórbændur, konur hófu sína réttindabaráttu á Vesturlöndum og aldalangri þrælkun og ánauð fólks af afrískum uppruna á vegum afkomenda Evrópubúa var aflétt með borgarastyrjöld í Bandaríkjunum. Í handskrifaðri bók Jóhanns í Miðhúsum er rakin saga félagsskapar í Óslandshlíðinni og aðdraganda að byggingu félagsheimilis. Hann lýsir því svo að á fyrri hluta 19. aldar hafi mikil bindindisalda gengið yfir Norður Ameríku sem vakti mikla athygli í Norður Evrópu og m.a. var fenginn maður að vestan til Prússlands 1835 til að kynna þar bindindismál. Áhrifin bárust víða og félag var stofnað í Hamborg í Þýskalandi til að sporna við drykkjuskap. Stutt er þaðan til Danmerkur og muni Danir fljótt hafa orðið fyrir áhrifum þaðan og þar með bárust þessar hugmyndir til Íslands. Ekki þarf að efast um að drykkja hafi verið mikil á þessum árum og því til sönnunar er hægt að benda á gamanleik norsk/danska rithöfundarins Ludvig Holbergs (1684-1754) frá 1722 "Jeppe paa Bjerget". "Þeir segja að Jeppe drekki, en ekki hversvegna hann drekki" (De sier at Jeppe drikker, men ikke hvorfor han drikker). Þessi heimspekilega setning eða hugleiðing er meðal þess sem hefur orðið til að gamanleikurinn hefur notið mikilla vinsælda öldum saman enda með alvarlegum undirtóni. Jóhann lýsir síðan áfram tildrögum stofnunar bindindisfélags í Óslandshlíð. Í lok nítjándu aldar er fluttur í Ósland úr Fljótum áðurnefndur Rögnvaldur Þorleifsson sem mun hafa verið gildur bóndi en allnokkuð vínhneigður. Einskonar drykkjufélag mun hafa verið við lýði og voru margir fátækir bændur og fjölskyldumenn þáttakendur. Rögnvaldur á Óslandi var hygginn maður og framsýnn og sá að við búið mátti ekki standa. Ekki veit ég hvort hann þekkti til Jeppe paa Bjerget, en kannski hefur hann velt fyrir sér spurningunni "hversvegna drekka menn" (hvorfor drikker Jeppe). Allt að einu þá sá hann að í óefni stefndi og fór þess á leit við bændur í Óslandshlíð að þeir stofnuðu bindindisfélag og hættu drykkju. Stofnfundur bindindisfélagsins "Tilreyndar" var haldinn á Óslandi 12. febr. 1898. Á fundinn mættu 18 fundarmenn frá öllum bæjum í Óslandshlíð nema Tumabrekku. Í skrifum Jóhanns í Miðhúsum er síðan fjallað um upphaf byggingar samkomuhúss í Óslandshlíð. Starf Tilreyndarinnar var sem vonlegt var ekki fjölþætt til að byrja með, en ákveðið var að hafa félagsfundi einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og ræða þar félagsmál, jafnframt því að hvetja félagana til samstarfs og staðfestu í bindindismálum. Ekkert samkomuhús var til í allri sveitinni og húsrými á bæjum mjög takmarkað. Þó voru litlar stofur, svokallaðar gestastofur á fjórum bæjum Miklabæ, Marbæli, Óslandi og Miðhúsum, og var leitað þangað til skiftis til að halda félagsfundi og má með sanni segja að oft hafi verið "þröngt á þingi". Félagsgjöld voru einu tekjurnar og var einhverju varið til að veita félagsmönnum kaffi svo ekki var um neina sjóðsöfnun að ræða. Fundir voru allatíð byrjaðir með söng og voru það helst ættjarðarljóð og aðrir slíkir söngvar sem flestir kunnu teksta og lag við. Var svo fundur settur af formanni félagsins og síðan hófust umræður með þeim hætti að einhver af félagsmönnum hafði undirbúið framsöguræðu, og að henni lokinni voru almennar umræður. Oftast voru það bindindismál, en þó kom fyrir að rætt var um Íslendingasögur og leiddu menn þá saman hesta sína um ýmsar söguhetjur og þótti þetta hin besta skemmtun. Á eftir var stiginn dans þó húsrúmið væri lítið, aðeins fyrir 5 til 6 danspör. Þóttu þessir fundir og gleðskapur mikil nýjung, og varð eftirsótt að ganga í félagið af þeirri ástæðu, sérstaklega af yngra fólki. Í þessari skemmtilegu frásögn Jóa sem mögulega byggir á endurminningum hans frá því hann var ungur drengur á Krossi kemur ekkert fram um stöðu kvenna í félaginu eða hvernig kynjahlutfallið var á þessum fundum. Fulljóst er þó að konur hafa verið til staðar því varla hafa íslenskir karlmenn dansað hver við annan í kringum aldamótin 1900. Ekki er heldur ótrúlegt að mörg samfélagsmál hafi borið á góma á þessum fundum og gjarnan vildi ég vita hvort formæður mínar hafi rætt mál eins og kosningarétt sem íslenskar konur fengu fyrst 1915, þó aðeins þeirra sem voru yfir fertugt. Einnig þykir mér mjög trúlegt að skólamál og uppfræðsla barna og unglinga hafi borið á góma og þörf a uppbyggingu skóla. Jói skrifar síðan söguna áfram og segir þar að félögum hafi fjölgað ört og til vandræða horfði með húsnæði til fundarhalda. Fóru þá hinir bjartsýnustu að hreyfa því að byggja þyrfti hús til fundarhalda og samkomuhalds. Allir vildu byggja, en sáu ekki hvernig það gæti gerst. Enginn félagssjóður var til að gagni, og fæstir aflögufærir efnalega. Þá flutti Hartmann Ásgrímsson í Kolkuós árið 1901 og setti þar upp verslun. Gekk hann í félagið og bauð fljótlega félaginu að panta efni ú húsið og lána félaginu það í bili, og félagið myndi svo greiða honum árlega afborgun eftir getu. Sýnir þetta áhuga og bjartsýni og óbilandi trú á framtíðina. Hartmann var áhugamaður um bindindismál og alla tíð fórnfús félagsmaður. Vorið 1902 kom svo byggingarefnið í fyrirhugað hús, en þá var eftir að fá lóð og ákveða hvar átti að byggja. Þá reis upp langafi minn Jón Erlendsson á Marbæli og bauð lóð undir hús endurgjaldslaust á melunum niður undan Marbæli. Þessu tilboði var tekið með miklum fögnuði og þökkum og þótti farsæl lausn. Ekki síst þar sem þessi staður var bæði á miðju félagssvæðinu og umhverfi og útsýni prýðilegt. Jón Erlendsson var alla tíð eldheitur bindindismaður og fórnfús fyrir félagið. Móðir mín segir um þennan afa sinn að hún sé reiðubúin að sverja hvar sem er að hann hafi aldrei látið dropa af áfengi inn fyrir sínar varir. Húsið var síðan tilbúið 1903 og þar með hefst skólahald þar til viðbótar við félagsstarfsemi sveitarinnar. Það er vert að gefa gaum að stórhug Óslandshlíðinga á þessum árum. Á þessum árum var komin fram krafa um meira skipulagt skólahald en áður hafði verið. Stórhugur forfeðra og formæðra minna gerðu það að verkum að heimili í Óslandshlíð þurftu ekki að taka skóla fyrir börn sín inn á heimili sín heldur var heimangönguskóli og reglulegt skólahald á Hlíðarhúsi frá upphafi. Það er ekki erfitt að leiða rökum að því að það hafi verið mikill léttir fyrir formæður mínar að sleppa við þá auka fyrirhöfn sem því fylgdi að hafa skóla inn á stórum heimilum m.a. með þeim hávaða sem fylgir mörgum börnum sem þær höfðu flestar ef ekki allar nóg af fyrir. Þær höfðu hvorki málfrelsi né tillögurétt á þessum árum, en ekki þarf að efast um að þær hafi stutt bændur sína vel og dyggilega í þessum framkvæmdum og viljað sem mesta og besta menntun fyrir sín börn. Trúlega hefur líka margri fátækri konu létt þegar bóndi hennar hætti blótum Bakkusar og sneri ser að heilbrigðari félagsmálum og uppbyggingu samfélagsins. Hlíðarhúsið á Marbælismelum varð fyrir skemmdum og ákveðið var að rífa það, en nýtt steinsteypt hús var reist og vígt 1925 og það stendur enn. Langafi minn Jón á Marbæli fullvissaði félagsmenn sem þá höfðu breytt bindindisfélaginu Tilreyndinni í Ungmennafélagið Geisli, um að Húsið gæti staðið endurgjaldslaust þar um langan aldur en fór fram á að ötult bindindisstarf yrði þar og áfengis ekki neytt. Afkomendur hans og sveitungar gleymdu þessu með árunum, en öflugt félags og skólastarf einkenndi Óslandshlíðina í marga áratugi Ungmennafélagið Geisli tók við af bindindisfélaginu, kvenfélagið Ósk starfaði lengi og búnaðarfélag sömuleiðis. Seinna var ungmennafélagið Geisli sameinað ungmennafélaginu Höfðstrendingi og fékk nafnið Neisti. Það félag er enn starfandi og sér um rekstur Hlíðarhúss. Átthagafélag Óslandshlíðinga var seinna stofnað og fékk nafnið Geisli. Framtak þeirra sem stóðu að byggingum beggja húsanna er fágætt og sérstakt. Saga bindindisfélagsins Tilreyndar sem seinna varð ungmennafélagið Geisli og er núna ungmennafélagið Neisti sem er eigandi Hlíðarhússins og sér um rekstur þess er samofin sögu fjölskyldu minnar. Rögnvaldur Þorleifsson langalangafi minn var aðalhvatamaður að stofnun Tilreyndar, Jón Erlendsson langafi minn lét lóð undir Húsið endurgjaldslaust. Langafi minn Jón Sigurðsson var yfirsmiður þegar steinhúsið var byggt 1925, afi minn Kristján Jónsson átti langflestar stundir í gefinni vinnu við það hús og amma mín Ingibjörg Kristín Jónsdóttir og systur hennar Ásta og Þórleif gáfu þónokkrar stundir og nokkrar krónur til hússins og létu skrá sig sjálfar fyrir því, en venjan virðist hafa verið að skrifa þetta á heimilisföður. Foreldrar mínir voru öflugir félagar í ungmennafélaginu Geisla og bræður mínir seinna í Neista. Ég hef nú rekið aðdraganda byggingar Hlíðarhúss og stórhug fólks í þessari litlu sveit sem byggðu eigið samkomuhús og skóla á undan öðrum sveitum a.m.k. í Skagafirði. Ég vil nú ræða um skólahald þar á þessum árum. Litlar heimildir eru til um kennsluaðferðir á Íslandi fram á tuttugustu öld. Um 1880 var búið að stofna barnaskóla í mörgum bæjum og farskóla í sveitum Íslands. Loftur Guttormsson (2008) skrifar um fræðslumál í norrænu samhengi og segir að samanburður við lönd í austri og vestri hafi sett mikið mark á fræðslumálaumræðu á Íslandi þegar leið að aldamótunum 1900. Hann nefnir þar allnokkra sem höfðu dvalið erlendis og kynnt sér þetta af eigin raun, svosem Einar Hjörleifsson (síðar Kvaran) og Gest Pálsson ritstjóra og rithöfunda, sem og amtmanninn Pál Briem. Ennfremur hafi skólastjórarnir og kennararnir Jón Þórarinsson, Jóhannes Sigfússon og Sigurður Jónsson farið gagngert til útlanda til að kynna sér skólamál og birtu niðurstöður í tímaritum. Allir þessir menn gagnrýndu þá skoðun að íslensk alþýða stæði almenningi í nágrannalöndum jafnfætis eða jafnvel framar í menntun. M.a. segir Einar Hjörleifsson í grein sinni "Alþýðumenntun hér á landi" bls. 37 að varhugavert væri að leggja of mikið upp úr því að þó lestrarkunnátta teldist almenn væri "hún í sjálfu sér engin menntun, heldur menntunarfæri aðeins". Þessi umræða fór fram langt fjarri litlu sveitinni minni, Óslandshlíð, en áhrif samfélagsins og lagasetningar fór ekki fram hjá neinum þó upplýsingaflæði og fréttir hafi borist seinna og það tók allmikið lengri tíma en nú á dögum. Mér er ekki kunnugt um almenna lestrar og skriftarkunnáttu í Óslandshlíð um aldamótin 1900. Það er erfitt fyrir nútímafólk að gera sér grein fyrir þessu samfélagi. Óslandshlíð var mjög þéttbýl á þessum tíma miðað við íslenskar sveitir og Sleitubjarnastaðir, í daglegu tali nefnt Sleitustaðir, sem liggja við enda Óslandshlíðarfjalla í mynni Kolbeinsdals voru alltaf félagslega með Óslandshlíðinni. Einnig var Kolkuós, sem tilheyrir landfræðilega Viðvíkursveit, hinum megin óssins á móti melunum sem ákveðið var að byggja hús fyrir félagið, alltaf með félagslega. Vegalengdin er örstutt, en ekki alltaf jafn auðvelt að komast yfir ána. Gera má ráð fyrir að á félagssvæðinu hafi verið á milli tíu og tuttugu heimili, og þó heimili þeirra tíma hafi verið mun fjölmennari enn í dag er ekki um stóran hóp fólks að ræða. Því aðdáunarverðara er þetta framtak og framsýni þeirra sem að því stóðu einstök. Vegalengdin frá Sleitustöðum og út í Miðhús mun vera um 15 kílómetrar sem tekur aðeins nokkrar mínútur að komast á bílum nútímans. Allt að öllu var byggt hús sem var vígt 1902 og skólahald hófst þar 1903. Einu heimildir sem ég hef séð um það skólahald er úr skrifaðri ræðu Bjarna Á. Jóhannssonar frá Miðhúsum sem hann hélt á nemendamóti 1997 og segir hann þar að foreldrar sínir hafi verið í skóla á Húsinu (sem Hlíðarhúsið gjarnan var nefnt í daglegu tali) og segir sögur þaðan eftir föður sínum áðurnefndum Jóhanni í Miðhúsum. Í öðrum árgangi Skólablaðsins frá 1908, 19. tölublaði bls. 76 kemur fram að styrkur úr landssjóði til barnaskóla í Óslandshlíð var 150 krónur. Ætla má að aðrir staðir sem nefndir eru hafi flestir ef ekki allir verið þéttbýliskjarnar. Í fimmta árgangi frá 1911, 10. tölublaði bls. 156 og 157 kemur fram að styrkur úr landssjóði til skólans var 200 krónur og styrkur til Skagafjarðarsýslu vegna farskóla var 1476,02 krónur. Það er því auðvelt að færa rök að því að þarna var ekki skráður farskóli og að önnur sveitarfélög í Skagafirði, fyrir utan Sauðárkrók, hafi rekið farskóla. Í grein Morgunblaðsins 1. September 2004 er sagt frá afhjúpun minnisvarða um farskóla á Hlíðarhúsinu og ávarpi Þorgerðar Katrínar þannig orðrétt: Þorgerður Katrín sagði í ávarpi sínu frá upphafi farskólanna og sagði að farkennslan hefði fyrst svarað kalli tímans um almennt barnaskólahald og tiltölulega jöfn tækifæri íslenskra barna til grunnmenntunar. "Blómaskeið þessarar kennslu fellur vel saman við sögu farkennslunnar hér í Óslandshlíð þar sem hún hófst árið 1903 og stóð eftir því sem best er vitað hvað lengst hér á landi eða allt til ársins 1967. Menntamálaráðuneytinu er það ánægja að hafa fengið tækifæri til að leggja framtaki Átthagafélags Óslandshlíðar lið. Því framtaki sem felst í gerð minnisvarða um farkennsluna sem óvíða er minnst að verðleikum, en á sér hér nú óbrotgjarnan stein í blóma og friðsæld þess lands sem hún spratt úr - og þar sem hún að lokum hneig." Hvaðan hafði Þorgerður Katrín þessar upplýsingar sem standast hvergi sögurýni eins og fram hefur komið áður, og ég mun færa enn frekari rök fyrir? Lög um barnaskóla eru sett í nóvember 1907 en áður höfðu verið sett lög 1880 um „uppfræðing barna í skript og reikningi“. Lögin sem voru sett 1907 komu til framkvæmda 1908 og voru þá öll börn skólaskyld frá 10 til 14 ára aldurs og skyldu forráðamenn sæta viðurlögum ef þeir fylgdu ekki eftir lögum þessum um fræðslu barna. Skv. fundargerðum hreppsnefndar og fræðslunefndar Hofshrepps var hreppnum skipt í tvö fræðsluhéruð frá 1908 til a.m.k. 1922. Var þá kennt á fleiri stöðum í ytri hluta hreppsins en innri hlutinn var Óslandshlíð og bæir í Deildardal sunnan Deildardalsár. Þar var alltaf kennt á Hlíðarhúsi og gengu börnin úr Óslandshlíð í skólann, en börnum úr Deildardal var komið fyrir á bæjum í nágrenni Hlíðarhúss. Þessi skipting hefur vakið athygli mína og er greinilegt af fundargerðum og frásögnum að töluvert ósamkomulag hefur verið um skólamál í Hofshreppi allan þann tíma sem skóli starfaði á Hlíðarhúsinu. Mér hefur ekki tekist að finna neinar frekari heimildir um hvernig fræðsludeildum var háttað í öðrum sveitarfélögum í Skagafirði, en hugsanlegt er að einhverjar heimildir finnist um það á Landsskjalasafni. Í skrifum Bjarna frá Miðhúsum nefnir hann endurminningar Sölva Sigurðssonar á Undhóli sem var í skólanum í kringum 1910 og eru þar nokkuð greinargóðar lýsningar á húsnæði í gamla húsinu sem byggt var 1903 og púltum sem notuð voru. Ekkert virðist hafa verið af námsgögnum og börnin komið með bækur með sér að heiman og fengið lánað af kennara eða öðrum. Sölvi hafði lagt áherslu á það hversu þakklátur hann var fyrir að hafa getað gengið í skóla svo nálægt heimili sínu. Árið 1909, 1911 og 1912 skrifar Sigurður Sigurðsson kennari á Hólum í Hjaltadal skýrslu um ástand skólans, en árið 1910 er það Brynleifur Tobiasson í Geldingarholti sem skrifar bréf til fræðslunefndar Óslandshlíðarskóla. Virðast þeir hafa verið tilnefndir eftirlitsmenn og gegnt svipuðu hlutverki og prófdómari seinna meir. Í bréfum þeirra eru athyglisverðar lýsingar á kennsluháttum og frammistöðu nemenda í heild sinni. Ekki voru fleiri slík bréf eftir 1912 og engir nemendur nefndir á nafn. Eftirfarandi skilgreiningar er að finna í íslenskri orðabók um hugtökin farskóli, farkennsla og farkennari farskóli = farkennslustofnun, skóli sem hefur ekki sérstakt hús en er til skiptis á heimilum í fræðsluhéraðinu farkennari = kennari í farskóla, maður sem annast farkennslu farkennsla•farandfræðsla, umferðarkennsla, barnakennsla án skólahúss sem fer fram (til skiptis) á heimilum í fræðsluhéraðinu•önnur kennsla sem fram fer án fasts aðseturs Óslandshlíðingar höfðu aldrei skóla til skiptis á heimilum sínum nema vera kann að það hafi eitthvað verið um skipulega kennslu á heimilum fyrir 1903. Um það hef ég engar heimildir nema móðir mín segir mér að amma hennar Anna Rögnvaldsdóttir á Marbæli hafi fengið uppfræðslu á æskuheimili sínu Óslandi. Ekki er ótrúlegt að börnum hafi eitthvað verið safnað saman og að bændur og búalið hafi skipst á um að kenna. Um þetta finnast engar heimildir og ekki heldur hvernig ráðningu kennara var háttað á Hlíðarhúsi frá 1903 til 1908 og sennilega hafa bændur borgað kennsluna úr eigin vasa. Þetta eru þó eingöngu tilgátur. Frá 1908 ber sveitarfélagið alfarið ábyrgð á skólahaldi og að uppfræðslulögum sé fylgt. Sveitarfélaginu Hofshreppi var eins og áður er sagt skipt í tvö fræðslusvæði. Innra fræðsluhéraðið hafði eingöngu skóla á Hlíðarhúsinu og þar með er útilokað að segja að farskóla hafi verið á svæðinu. Skólinn hafði alla tíð fast aðsetur á Hlíðarhúsi. Ytra svæði hreppsins hafði ekkert hús á þessum tíma og eingöngu er kennt á heimilum m.a. var kennt á Kambi í Deildardal og Bæ á Höfðaströnd. Þar var farskóli skv. skilgreinigu orðabókar. Fræðsluhéruðunum er svo slegið saman á milli 1920 og 1930. Þá er ráðinn farkennari og stundum tveir til að sinna sameiginlegu fræðsluhéraði í sveitarfélaginu. Þar með er farskólaformið óumdeilanlegt í fræðsluhéraðinu og Hlíðarhús hluti af því. Í samantekt Björns Björnssonar um skólamál í Hofsós frá 2007 kemur fram að mikil fundarhöld og ósamkomulag var um fyrirkomulag skólamála á svæðinu. Mikið var rætt um heimavistarskóla og keyrslu skólabarna og þótti hvorugur kosturinn góður. Óslandshlíðingar stóðu harðast á móti breytingum enda höfðu þeir eigið skólahús og börn þeirra gátu gengið í skólann. Börn annars staðar úr sveitafélaginu var í mörgum tilfellum komið fyrir á bæjum í kringum skólastaðina. 1947 er sveitarfélaginu skipt og Hofsós sem þá er orðinn töluverður þéttbýliskjarni verður eigið sveitarfélag. Um það leyti er byggt þar eigið skólahús og fastur skóli stofnaður. Fyrir þennan tíma hafði verið kennt m.a. í Bæ og Mýrarkoti á Höfðaströnd, en því er þá hætt. Hvergi er þá skóli annars staðar í hinu nýja sveitarfélagi Hofshreppi enn á Hlíðarhúsi. Sum börn úr utanverðum hreppnum munu hafa gengið niður í Hofsós. Öðrum er komið fyrir á bæjum í Óslandshlíð þar sem þau geta gengið á Hlíðarhús. Eingöngu er ráðinn einn kennari við Hlíðarhús sem ekki kennir annars staðar og er þar með ekki hægt að túlka skólahald sem farkennslu eða að þar sé farkennari. Á þessum árum er búið að breyta fræðslulögum og færa fræðsluskyldan aldur niður í 7 ára. Hægt var þó að fá undanþágu frá því, en viðmælendur mínir úr Óslandshlíð byrjuðu flestir 7 ára í skóla síðan þeir gátu gengið frá heimilum sínum. Börn annarssstaðar úr sveitarfélaginu komu yfirleitt seinna. Lög og reglugerðir sem kennt var eftir voru öðru vísi en í sveitum, en þéttbýli sama hvort um var farskóla að ræða eða ekki. Þegar farkennari sá um kennsluna á vegum sveitarfélagsins voru börnin í skólanum hálfan mánuð á hverjum stað. Á 6. áratugnum er fyrirkomulagið þannig að skipt var í yngri og eldri deild, og var yngri deildin í viku og eldri deildin í tvær vikur. Árið 1962 kemur fram krafa frá ytri hluta hreppsins að fá skóla þangað. Börn voru þá svo mörg í þeim hluta að erfitt var að koma þeim fyrir. Þar með er ákveðið að kenna í Mýrarkoti og Hlíðarhúsi og fallið til gamla fyrirkomulagsins með að kenna hálfan mánuð á hvorum stað og öllum árgöngum saman. Þetta var þó aldrei nema þrjú ár og skólaárið 1965 til 1966 var kennt eingöngu á Vatni á Höfðaströnd og þá hafin skólakeyrsla í sveitarfélaginu. Það mun vera eina árið sem ekki var kennt á Hlíðarhúsinu í sjötíu ára sögu skólans. Haustið 1966 er skólinn fluttur inn á Hlíðarhús aftur og skólakeyrsla úr hreppsfélaginu þangað. Börn úr Unadal og Höfðaströnd var þá keyrt fram hjá skólanum á Hofsósi a leið í skólann. Keyra þurfti upp í Deildardal líka og niður hann aftur áður en keyrt var inn í Óslandshlíð. Árið 1967 er sótt um að skóli á Hlíðarhúsi verði fastur skóli og þar með var ráðinn skólastjóri og skólaárið lengt úr 6 mánuðum í 7 mánuði á ári. Það breytti þó engu því samtímis var hætt að kenna á laurgardögum. Á þessum árum eru farskolar nánast horfnir og þó ennþá sé kennt á heimilum einhvers staðar á landinu er það yfirleitt á einu heimili. Mjög er á reiki hvenær farskóla er hætt í ýmsum sveitarfélögum, en kennsla sveitabarna er ennþá mun minni enn barna í þéttbýli. Hugtökin farskóli og sveitaskóli renna víða saman, og óljós mörk eru á sveitakennurum og farkennurum skv. ýmsum greinum um skólamál á síðustu öld. Ég var í skóla á Hlíðarhúsinu frá 1966 til 1970. Rafmagn kom í Óslandshlíðina 1964 og þá eru olíuofnar fjarlægðir sem voru orðnir stórhættulegir því olíuflekkir voru í kringum þá og eingöngu voru olíulampar og kerti til lýsinga. Rennandi vatn kom 1967 og 1968 er sett upp klósett. Fyrir þann tíma var eingöngu kamar norðan við húsið. Fyrstu tvö árin sem ég var í skóla þar var ég í yngri deild og kennt þriðju hverju viku í u.þ.b. sex mánuði. Það má gera ráð fyrir að ég hafi verið í skóla 6 til 7 vikur eða milli 40 og 50 daga á ári. Seinni tvö árin var ég í eldri deild og hef þá haft um 12 til 14 vikur á ári. Þetta var gríðarlegur munur í þéttbýli þar sem börn gengu í skóla á hverjum degi og skólaárið var lengra. Það er óumdeilanlegt að á þessum tíma urðum við sveitabörnin útundan og höfðum ekki sömu möguleika þegar áfram var haldið. Skólahald lagðist endanlega niður á Hlíðarhúsi 1973. Kennsluaðferðir voru hefðbundnar eftir því sem ég kemst næst í þau 70 ár sem skóli starfaði þar, en það er athyglisvert að lesa skif áðurnefnds Sigurðar Sigurðssonar kennara við bændaskólann á Hólum í Hjaltadal um lestrarskilning barna og þörf á að leggja meiri áherslu á hann fyrir rúmum 100 árum síðan. Min lestrarpróf í barnaskóla miðuðust eingöngu við lestrarhraða og svo var í áratugi. Skv. viðmælendum mínum og athugunum á bókakosti á þessum árum var eina breytingin áratugum saman að bókarkápum og stundum teikningum var breytt. M.a. var Íslandssaga Jónasar frá Hriflu mjög trúlega kennd þar frá því hún kom út 1915 og þar til skólahaldi lauk 1973. Hún er langlífasta kennslubók á Íslandi og var notuð til kennslu í 70 ár. Einnig var sungið töluvert og þá fyrst og fremst ættjarðarlög, en einnig sálmavers. Síðust áratugina var alltaf sungið til skiptis ”Ástarfaðir himinhæða” eða ”Ó faðir gjör mig lítið ljós” á morgnana áður nemendur settust niður og kennsla dagsins hófst. Farið var út í frímínútur, sumir fóru í fótbolta, farið var í eyjuleik og fleiri slíka eltingarleiki. Leikfimi var upp og ofan, en það kom varla að sök þar sem mörg börn gengu marga kílómetra í skólann og eftir að skólakeyrsla hófst voru alltaf hreyfingarleikir úti í frímínútum. Aðstaða til handavinnukennslu var engin, en drengir söguðu út í krossvið og stúlkur prjónuðu og saumuðu með tilsögn einhverra kvenna úr sveitinni þar sem allflestir kennarar voru karlkyns. Heimilisfræði eða matreiðsla var aldrei kennd. Enginn af þeim sem ég hef talað við hefur lýst skólahaldi öðru vísi, en þess sem ég minnist sjálf. Sérkennsla þekktist ekki, en í skrifaðri ræðu Bjarna Á. Jóhannssonar lýsir hann hvernig það var að kenna mörgum árgöngum saman og ekki var um að ræða að kenna öllum sama námsefni. Slíkt er kallað einstaklingsmiðað nám í dag og mikil áhersla lögð á það á Vesturlöndum. Lestrarörðugleikar voru sannarlega til og nokkuð víst að þónokkur börn liðu fyrir það. Farskólar voru tiltak síns tíma í byrjun 20. aldar, en voru olnbogabarn skólakerfisins. Ég ólst upp við að bera virðingu fyrir því að farskóli hefði aldrei verið í Óslandshlíð. Að setja upp minnismerki um farskóla sem var fastur á sama stað í 64 ár eða frá 1903 til 1967 stenst engan veginn og byggir á hugtakamisskilningi heimamanna sem síðan er staðfestur af menntamálaráðuneytinu. Rök þeirra sem stóðu að þessu þegar þau voru spurð hvernig þeim dytti í hug að þarna hefði verið farskóli var að menntamálaráðuneytið hefði samþykkt það. Skv. upplýsingum úr menntamálaráðuneytinu var það rætt að þetta væri ekki rétti staðurinn fyrir minnismerki um farskóla, en samt var samþykkt að veita styrk til að minnast farskóla. Upplýsingar á minnisvarðanum eru óljósar og engar heimildir um hvaðan þær voru teknar og ekki finnast upplýsingar um hvort leyfi hafi fengist hjá einstaklingum sem eru á myndum. Þetta getur því ekki annað en talist óvandað og engar heimildir fyrir framtíðina. Ekki þótti ástæða til að minnast síðustu sex áranna sem skóli starfaði á Hlíðarhúsinu og ekkert um þau nefnt. Minnisvarðinn sem menntamálaráðuneytið stuðlaði að er settur á grunn gamla skólahússins þar sem aldrei var farskóli eða kennt eftir farskólaformi. Hvergi er þessa félagslega framtaks minnst sem ég hef gert grein fyrir þegar bindindisfélagið Tilreyndin er stofnað sem enn er starfandi sem íþróttafélagið Neisti. Mér líður eins og valtað hafi verið yfir minningu forfeðra og formæðra minna sem sýndu mikinn stórhug og framtíðarsýn, og það með stuðningi og styrk menntamálaráðuneytisins. Heimildir eru fengnar á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga, m.a.úr fundargerðum frá skólanefndum og hreppsnefndum og skrifuðum upplýsingum frá þeim feðgum Jóhanni Ólafssyni og Bjarna Á. Jóhannssyni í Miðhúsum. Einnig úr ritaðri ræðu Bjarna sem Kristín dóttir hans lét mér í té. Samtölum við fyrrverandi nemendur úr Óslandshlíð, eigin minningum og blaðagreinum. Einnig var stuðst við eftirfarandi rit: Loftur Guttormsson (ritstjóri) 2008a. Almenningsfræðsla á Íslandi 1880 til 2007. Reykjavík Háskólaútgáfan. Ég vil þakka öllum viðmælendum mínum og ekki síst vil ég þakka Kaupfélagi Skagfirðinga sem hefur veitt mér styrk tvö ár í röð til að vinna að söfnun upplýsinga um minn gamla barnaskóla. Ingibjörg Kristín Jónsdóttir frá Óslandi í Óslandshlíð í Skagafirði. Doktor í menntunarfræðum og háskólakennari í Noregi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Áform um að eyðileggja Ísland! Jóna Imsland Skoðun Að þröngva lífsskoðun upp á annað fólk Sævar Þór Jónsson Skoðun Kjarnorkuákvæði? Dagur B. Eggertsson Skoðun Hver erum við? Hvert stefnum við? Arnar Þór Jónsson Skoðun Í skugga virkjana, þegar náttúran fær ekki að tala: Hvammsvirkjun lamin í gegn með góðu og illu Gunnar Þór Jónsson,Svanborg R. Jónsdóttir Skoðun Fjármálalæsi í fríinu – fjárfesting sem endist lengur en sólbrúnkan! Íris Björk Hreinsdóttir Skoðun Samstarf er lykill að framtíðinni Magnús Þór Jónsson Skoðun Mega blaðamenn ljúga? Páll Steingrímsson Skoðun Hvað hefur áunnist á 140 dögum? Heiða Björg Hilmisdóttir,Dóra Björt Guðjónsdóttir,Sanna Magdalena Mörtudóttir,Helga Þórðardóttir,Líf Magneudóttir Skoðun Á hvaða vegferð er ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur gagnvart sjávarútvegssveitarfélögunum? Anton Guðmundsson Skoðun Skoðun Skoðun Á hvaða vegferð er ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur gagnvart sjávarútvegssveitarfélögunum? Anton Guðmundsson skrifar Skoðun Dæmir sig sjálft Jón Pétur Zimsen skrifar Skoðun Mega blaðamenn ljúga? Páll Steingrímsson skrifar Skoðun Ákall um nægjusemi í heimi neyslubrjálæðis Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar Skoðun Hvað hefur áunnist á 140 dögum? Heiða Björg Hilmisdóttir,Dóra Björt Guðjónsdóttir,Sanna Magdalena Mörtudóttir,Helga Þórðardóttir,Líf Magneudóttir skrifar Skoðun Samstarf er lykill að framtíðinni Magnús Þór Jónsson skrifar Skoðun Kjarnorkuákvæði? Dagur B. Eggertsson skrifar Skoðun Hver erum við? Hvert stefnum við? Arnar Þór Jónsson skrifar Skoðun Í skugga virkjana, þegar náttúran fær ekki að tala: Hvammsvirkjun lamin í gegn með góðu og illu Gunnar Þór Jónsson,Svanborg R. Jónsdóttir skrifar Skoðun Fjármálalæsi í fríinu – fjárfesting sem endist lengur en sólbrúnkan! Íris Björk Hreinsdóttir skrifar Skoðun Hugtakið valdarán gengisfellt Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Ábyrgðin er þeirra Vilhjálmur Árnason skrifar Skoðun Dæmt um form, ekki efni Hörður Arnarson skrifar Skoðun Að þröngva lífsskoðun upp á annað fólk Sævar Þór Jónsson skrifar Skoðun Um fundarstjórn forseta Bryndís Haraldsdóttir skrifar Skoðun Hjálpartæki – fyrir hverja? Júlíana Magnúsdóttir skrifar Skoðun Flugnám - Fyrsti hluti: Menntasjóður námsmanna og ECTS einingar Matthías Arngrímsson skrifar Skoðun Áform um að eyðileggja Ísland! Jóna Imsland skrifar Skoðun Í 1.129 daga hefur Alþingi hunsað jaðarsettasta hóp samfélagsins Grímur Atlason skrifar Skoðun Tekur ný ríkisstjórn af skarið? Árni Einarsson skrifar Skoðun Strandveiðar í gíslingu – Alþingi sveltir sjávarbyggðir Árni Björn Kristbjörnsson skrifar Skoðun Rölt að botninum Smári McCarthy skrifar Skoðun Að fortíð skal hyggja þegar framtíð skal byggja Einar G. Harðarson skrifar Skoðun Málþóf spillingar og græðgi á Alþingi Jón Frímann Jónsson skrifar Skoðun Lýðskrum Skattfylkingarinnar Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar Skoðun Krabbamein – reddast þetta? Halla Þorvaldsdóttir skrifar Skoðun Valdið yfir sjávarútvegsmálunum Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Lummuleg áform heilbrigðisráðherra Ragnar Sigurður Kristjánsson skrifar Skoðun Hver á að fá súrefnisgrímuna fyrst? Davíð Bergmann. skrifar Skoðun Baráttan um kjör eldra fólks Jónína Björk Óskarsdóttir skrifar Sjá meira
Við austanverðan Skagafjörð stendur falleg sveit að stórum hluta meðfram ánni Kolku. Austan við Kolkuós stendur gamalt samkomuhús og skóli á mel. Saga þessa húss er saga Óslandshlíðar sveitarinnar sem liggur undir Óslandshlíðarfjöllum við austanverðan Skagafjörð og byrjar þar sem Höfðaströnd lýkur rétt innan við Gröf á Höfðaströnd. Fyrsti bær að norðan er Miðhús, og innsti bær að sunnan er Hlíðarendi. Óslandshlíð lýkur við Sleitubjarnarstaði, eða í daglegu tali nefnt Sleitustaðir. Sveitin er kennd við bæinn Ósland sem liggur utarlega í hlíðinni þar sem undirrituð sleit barnsskónum. Mér þykir undurvænt um þessa sveit þar sem ég á mínar rætur. Húsið sem ég nefndi í upphafi var nefnt Hlíðarhús og þar gekk ég í barnaskóla til 12 ára aldurs, eða til ársins 1970. Eftir það lá leiðin í burtu til frekari starfa og skólagöngu sem endaði árið 2012 með doktorsgráðu í menntunarfræðum frá St. John´s University í New York. Fyrir tíu árum síðan var settur upp minnisvarði um farskóla á Hlíðarhúsinu með styrk frá menntamálaráðuneytinu. Átthagafélag Óslandshlíðar stóð fyrir uppsetningunni og undir styrkveitinguna skrifaði Tómas Ingi Olrich þáverandi menntamálaráðherra og ári seinna 2004 afhjúpaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ,sem þá hafði tekið við af Tómasi Inga, minnisvarðann. Það er þessi minnisvarði og meðhöndlun ráðuneytisins á þessu máli sem er hvatinn til þessarar greinar. Ég gagnrýni harðlega menntamálaráðuneyti Íslands fyrir hvernig staðið var að þessu á allan hátt. Ég ætla núna að rekja sögu Hlíðarhússins og færa rökum fyrir því að minnimerki um farskóla á Hlíðarhúsi frá 1903 til 1967 er byggt á misskilningi heimamanna og vegna óvandaðra vinnubragða íslenskra stjórnvalda. Árið 1898 var bindindisfélagið Tilreyndin (eða Tilreynd, það er nokkuð á reiki hvort það er kallað og mér hefur ekki tekist að finna út hvort er réttara) stofnað. Aðalhvatamaður þess var Rögnvaldur Þorleifsson bóndi á Óslandi og langalangafi minn. Jóhann Ólafsson bóndi í Miðhúsum skrifaði sögu félagshalds í Óslandshlíð frá upphafi og fram að 1950 og eru skrif hans varðveitt á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga. Það fóru sterkir straumar frelsisbaráttu í mörgum myndum um evrópsk lönd á nítjándu öldinni. Þótt Ísland liggi allnokkuð frá meginlandi Evrópu varð það ávallt fyrir áhrifum þaðan. Nítjánda öldin var öld baráttu almúgans fyrir breyttum kjörum, hinn frjálsi bóndi varð m.a. tákn uppbyggingar norsks samfélags þar sem aldrei hafði verið aðall en stórbændur, konur hófu sína réttindabaráttu á Vesturlöndum og aldalangri þrælkun og ánauð fólks af afrískum uppruna á vegum afkomenda Evrópubúa var aflétt með borgarastyrjöld í Bandaríkjunum. Í handskrifaðri bók Jóhanns í Miðhúsum er rakin saga félagsskapar í Óslandshlíðinni og aðdraganda að byggingu félagsheimilis. Hann lýsir því svo að á fyrri hluta 19. aldar hafi mikil bindindisalda gengið yfir Norður Ameríku sem vakti mikla athygli í Norður Evrópu og m.a. var fenginn maður að vestan til Prússlands 1835 til að kynna þar bindindismál. Áhrifin bárust víða og félag var stofnað í Hamborg í Þýskalandi til að sporna við drykkjuskap. Stutt er þaðan til Danmerkur og muni Danir fljótt hafa orðið fyrir áhrifum þaðan og þar með bárust þessar hugmyndir til Íslands. Ekki þarf að efast um að drykkja hafi verið mikil á þessum árum og því til sönnunar er hægt að benda á gamanleik norsk/danska rithöfundarins Ludvig Holbergs (1684-1754) frá 1722 "Jeppe paa Bjerget". "Þeir segja að Jeppe drekki, en ekki hversvegna hann drekki" (De sier at Jeppe drikker, men ikke hvorfor han drikker). Þessi heimspekilega setning eða hugleiðing er meðal þess sem hefur orðið til að gamanleikurinn hefur notið mikilla vinsælda öldum saman enda með alvarlegum undirtóni. Jóhann lýsir síðan áfram tildrögum stofnunar bindindisfélags í Óslandshlíð. Í lok nítjándu aldar er fluttur í Ósland úr Fljótum áðurnefndur Rögnvaldur Þorleifsson sem mun hafa verið gildur bóndi en allnokkuð vínhneigður. Einskonar drykkjufélag mun hafa verið við lýði og voru margir fátækir bændur og fjölskyldumenn þáttakendur. Rögnvaldur á Óslandi var hygginn maður og framsýnn og sá að við búið mátti ekki standa. Ekki veit ég hvort hann þekkti til Jeppe paa Bjerget, en kannski hefur hann velt fyrir sér spurningunni "hversvegna drekka menn" (hvorfor drikker Jeppe). Allt að einu þá sá hann að í óefni stefndi og fór þess á leit við bændur í Óslandshlíð að þeir stofnuðu bindindisfélag og hættu drykkju. Stofnfundur bindindisfélagsins "Tilreyndar" var haldinn á Óslandi 12. febr. 1898. Á fundinn mættu 18 fundarmenn frá öllum bæjum í Óslandshlíð nema Tumabrekku. Í skrifum Jóhanns í Miðhúsum er síðan fjallað um upphaf byggingar samkomuhúss í Óslandshlíð. Starf Tilreyndarinnar var sem vonlegt var ekki fjölþætt til að byrja með, en ákveðið var að hafa félagsfundi einu sinni í mánuði yfir vetrartímann og ræða þar félagsmál, jafnframt því að hvetja félagana til samstarfs og staðfestu í bindindismálum. Ekkert samkomuhús var til í allri sveitinni og húsrými á bæjum mjög takmarkað. Þó voru litlar stofur, svokallaðar gestastofur á fjórum bæjum Miklabæ, Marbæli, Óslandi og Miðhúsum, og var leitað þangað til skiftis til að halda félagsfundi og má með sanni segja að oft hafi verið "þröngt á þingi". Félagsgjöld voru einu tekjurnar og var einhverju varið til að veita félagsmönnum kaffi svo ekki var um neina sjóðsöfnun að ræða. Fundir voru allatíð byrjaðir með söng og voru það helst ættjarðarljóð og aðrir slíkir söngvar sem flestir kunnu teksta og lag við. Var svo fundur settur af formanni félagsins og síðan hófust umræður með þeim hætti að einhver af félagsmönnum hafði undirbúið framsöguræðu, og að henni lokinni voru almennar umræður. Oftast voru það bindindismál, en þó kom fyrir að rætt var um Íslendingasögur og leiddu menn þá saman hesta sína um ýmsar söguhetjur og þótti þetta hin besta skemmtun. Á eftir var stiginn dans þó húsrúmið væri lítið, aðeins fyrir 5 til 6 danspör. Þóttu þessir fundir og gleðskapur mikil nýjung, og varð eftirsótt að ganga í félagið af þeirri ástæðu, sérstaklega af yngra fólki. Í þessari skemmtilegu frásögn Jóa sem mögulega byggir á endurminningum hans frá því hann var ungur drengur á Krossi kemur ekkert fram um stöðu kvenna í félaginu eða hvernig kynjahlutfallið var á þessum fundum. Fulljóst er þó að konur hafa verið til staðar því varla hafa íslenskir karlmenn dansað hver við annan í kringum aldamótin 1900. Ekki er heldur ótrúlegt að mörg samfélagsmál hafi borið á góma á þessum fundum og gjarnan vildi ég vita hvort formæður mínar hafi rætt mál eins og kosningarétt sem íslenskar konur fengu fyrst 1915, þó aðeins þeirra sem voru yfir fertugt. Einnig þykir mér mjög trúlegt að skólamál og uppfræðsla barna og unglinga hafi borið á góma og þörf a uppbyggingu skóla. Jói skrifar síðan söguna áfram og segir þar að félögum hafi fjölgað ört og til vandræða horfði með húsnæði til fundarhalda. Fóru þá hinir bjartsýnustu að hreyfa því að byggja þyrfti hús til fundarhalda og samkomuhalds. Allir vildu byggja, en sáu ekki hvernig það gæti gerst. Enginn félagssjóður var til að gagni, og fæstir aflögufærir efnalega. Þá flutti Hartmann Ásgrímsson í Kolkuós árið 1901 og setti þar upp verslun. Gekk hann í félagið og bauð fljótlega félaginu að panta efni ú húsið og lána félaginu það í bili, og félagið myndi svo greiða honum árlega afborgun eftir getu. Sýnir þetta áhuga og bjartsýni og óbilandi trú á framtíðina. Hartmann var áhugamaður um bindindismál og alla tíð fórnfús félagsmaður. Vorið 1902 kom svo byggingarefnið í fyrirhugað hús, en þá var eftir að fá lóð og ákveða hvar átti að byggja. Þá reis upp langafi minn Jón Erlendsson á Marbæli og bauð lóð undir hús endurgjaldslaust á melunum niður undan Marbæli. Þessu tilboði var tekið með miklum fögnuði og þökkum og þótti farsæl lausn. Ekki síst þar sem þessi staður var bæði á miðju félagssvæðinu og umhverfi og útsýni prýðilegt. Jón Erlendsson var alla tíð eldheitur bindindismaður og fórnfús fyrir félagið. Móðir mín segir um þennan afa sinn að hún sé reiðubúin að sverja hvar sem er að hann hafi aldrei látið dropa af áfengi inn fyrir sínar varir. Húsið var síðan tilbúið 1903 og þar með hefst skólahald þar til viðbótar við félagsstarfsemi sveitarinnar. Það er vert að gefa gaum að stórhug Óslandshlíðinga á þessum árum. Á þessum árum var komin fram krafa um meira skipulagt skólahald en áður hafði verið. Stórhugur forfeðra og formæðra minna gerðu það að verkum að heimili í Óslandshlíð þurftu ekki að taka skóla fyrir börn sín inn á heimili sín heldur var heimangönguskóli og reglulegt skólahald á Hlíðarhúsi frá upphafi. Það er ekki erfitt að leiða rökum að því að það hafi verið mikill léttir fyrir formæður mínar að sleppa við þá auka fyrirhöfn sem því fylgdi að hafa skóla inn á stórum heimilum m.a. með þeim hávaða sem fylgir mörgum börnum sem þær höfðu flestar ef ekki allar nóg af fyrir. Þær höfðu hvorki málfrelsi né tillögurétt á þessum árum, en ekki þarf að efast um að þær hafi stutt bændur sína vel og dyggilega í þessum framkvæmdum og viljað sem mesta og besta menntun fyrir sín börn. Trúlega hefur líka margri fátækri konu létt þegar bóndi hennar hætti blótum Bakkusar og sneri ser að heilbrigðari félagsmálum og uppbyggingu samfélagsins. Hlíðarhúsið á Marbælismelum varð fyrir skemmdum og ákveðið var að rífa það, en nýtt steinsteypt hús var reist og vígt 1925 og það stendur enn. Langafi minn Jón á Marbæli fullvissaði félagsmenn sem þá höfðu breytt bindindisfélaginu Tilreyndinni í Ungmennafélagið Geisli, um að Húsið gæti staðið endurgjaldslaust þar um langan aldur en fór fram á að ötult bindindisstarf yrði þar og áfengis ekki neytt. Afkomendur hans og sveitungar gleymdu þessu með árunum, en öflugt félags og skólastarf einkenndi Óslandshlíðina í marga áratugi Ungmennafélagið Geisli tók við af bindindisfélaginu, kvenfélagið Ósk starfaði lengi og búnaðarfélag sömuleiðis. Seinna var ungmennafélagið Geisli sameinað ungmennafélaginu Höfðstrendingi og fékk nafnið Neisti. Það félag er enn starfandi og sér um rekstur Hlíðarhúss. Átthagafélag Óslandshlíðinga var seinna stofnað og fékk nafnið Geisli. Framtak þeirra sem stóðu að byggingum beggja húsanna er fágætt og sérstakt. Saga bindindisfélagsins Tilreyndar sem seinna varð ungmennafélagið Geisli og er núna ungmennafélagið Neisti sem er eigandi Hlíðarhússins og sér um rekstur þess er samofin sögu fjölskyldu minnar. Rögnvaldur Þorleifsson langalangafi minn var aðalhvatamaður að stofnun Tilreyndar, Jón Erlendsson langafi minn lét lóð undir Húsið endurgjaldslaust. Langafi minn Jón Sigurðsson var yfirsmiður þegar steinhúsið var byggt 1925, afi minn Kristján Jónsson átti langflestar stundir í gefinni vinnu við það hús og amma mín Ingibjörg Kristín Jónsdóttir og systur hennar Ásta og Þórleif gáfu þónokkrar stundir og nokkrar krónur til hússins og létu skrá sig sjálfar fyrir því, en venjan virðist hafa verið að skrifa þetta á heimilisföður. Foreldrar mínir voru öflugir félagar í ungmennafélaginu Geisla og bræður mínir seinna í Neista. Ég hef nú rekið aðdraganda byggingar Hlíðarhúss og stórhug fólks í þessari litlu sveit sem byggðu eigið samkomuhús og skóla á undan öðrum sveitum a.m.k. í Skagafirði. Ég vil nú ræða um skólahald þar á þessum árum. Litlar heimildir eru til um kennsluaðferðir á Íslandi fram á tuttugustu öld. Um 1880 var búið að stofna barnaskóla í mörgum bæjum og farskóla í sveitum Íslands. Loftur Guttormsson (2008) skrifar um fræðslumál í norrænu samhengi og segir að samanburður við lönd í austri og vestri hafi sett mikið mark á fræðslumálaumræðu á Íslandi þegar leið að aldamótunum 1900. Hann nefnir þar allnokkra sem höfðu dvalið erlendis og kynnt sér þetta af eigin raun, svosem Einar Hjörleifsson (síðar Kvaran) og Gest Pálsson ritstjóra og rithöfunda, sem og amtmanninn Pál Briem. Ennfremur hafi skólastjórarnir og kennararnir Jón Þórarinsson, Jóhannes Sigfússon og Sigurður Jónsson farið gagngert til útlanda til að kynna sér skólamál og birtu niðurstöður í tímaritum. Allir þessir menn gagnrýndu þá skoðun að íslensk alþýða stæði almenningi í nágrannalöndum jafnfætis eða jafnvel framar í menntun. M.a. segir Einar Hjörleifsson í grein sinni "Alþýðumenntun hér á landi" bls. 37 að varhugavert væri að leggja of mikið upp úr því að þó lestrarkunnátta teldist almenn væri "hún í sjálfu sér engin menntun, heldur menntunarfæri aðeins". Þessi umræða fór fram langt fjarri litlu sveitinni minni, Óslandshlíð, en áhrif samfélagsins og lagasetningar fór ekki fram hjá neinum þó upplýsingaflæði og fréttir hafi borist seinna og það tók allmikið lengri tíma en nú á dögum. Mér er ekki kunnugt um almenna lestrar og skriftarkunnáttu í Óslandshlíð um aldamótin 1900. Það er erfitt fyrir nútímafólk að gera sér grein fyrir þessu samfélagi. Óslandshlíð var mjög þéttbýl á þessum tíma miðað við íslenskar sveitir og Sleitubjarnastaðir, í daglegu tali nefnt Sleitustaðir, sem liggja við enda Óslandshlíðarfjalla í mynni Kolbeinsdals voru alltaf félagslega með Óslandshlíðinni. Einnig var Kolkuós, sem tilheyrir landfræðilega Viðvíkursveit, hinum megin óssins á móti melunum sem ákveðið var að byggja hús fyrir félagið, alltaf með félagslega. Vegalengdin er örstutt, en ekki alltaf jafn auðvelt að komast yfir ána. Gera má ráð fyrir að á félagssvæðinu hafi verið á milli tíu og tuttugu heimili, og þó heimili þeirra tíma hafi verið mun fjölmennari enn í dag er ekki um stóran hóp fólks að ræða. Því aðdáunarverðara er þetta framtak og framsýni þeirra sem að því stóðu einstök. Vegalengdin frá Sleitustöðum og út í Miðhús mun vera um 15 kílómetrar sem tekur aðeins nokkrar mínútur að komast á bílum nútímans. Allt að öllu var byggt hús sem var vígt 1902 og skólahald hófst þar 1903. Einu heimildir sem ég hef séð um það skólahald er úr skrifaðri ræðu Bjarna Á. Jóhannssonar frá Miðhúsum sem hann hélt á nemendamóti 1997 og segir hann þar að foreldrar sínir hafi verið í skóla á Húsinu (sem Hlíðarhúsið gjarnan var nefnt í daglegu tali) og segir sögur þaðan eftir föður sínum áðurnefndum Jóhanni í Miðhúsum. Í öðrum árgangi Skólablaðsins frá 1908, 19. tölublaði bls. 76 kemur fram að styrkur úr landssjóði til barnaskóla í Óslandshlíð var 150 krónur. Ætla má að aðrir staðir sem nefndir eru hafi flestir ef ekki allir verið þéttbýliskjarnar. Í fimmta árgangi frá 1911, 10. tölublaði bls. 156 og 157 kemur fram að styrkur úr landssjóði til skólans var 200 krónur og styrkur til Skagafjarðarsýslu vegna farskóla var 1476,02 krónur. Það er því auðvelt að færa rök að því að þarna var ekki skráður farskóli og að önnur sveitarfélög í Skagafirði, fyrir utan Sauðárkrók, hafi rekið farskóla. Í grein Morgunblaðsins 1. September 2004 er sagt frá afhjúpun minnisvarða um farskóla á Hlíðarhúsinu og ávarpi Þorgerðar Katrínar þannig orðrétt: Þorgerður Katrín sagði í ávarpi sínu frá upphafi farskólanna og sagði að farkennslan hefði fyrst svarað kalli tímans um almennt barnaskólahald og tiltölulega jöfn tækifæri íslenskra barna til grunnmenntunar. "Blómaskeið þessarar kennslu fellur vel saman við sögu farkennslunnar hér í Óslandshlíð þar sem hún hófst árið 1903 og stóð eftir því sem best er vitað hvað lengst hér á landi eða allt til ársins 1967. Menntamálaráðuneytinu er það ánægja að hafa fengið tækifæri til að leggja framtaki Átthagafélags Óslandshlíðar lið. Því framtaki sem felst í gerð minnisvarða um farkennsluna sem óvíða er minnst að verðleikum, en á sér hér nú óbrotgjarnan stein í blóma og friðsæld þess lands sem hún spratt úr - og þar sem hún að lokum hneig." Hvaðan hafði Þorgerður Katrín þessar upplýsingar sem standast hvergi sögurýni eins og fram hefur komið áður, og ég mun færa enn frekari rök fyrir? Lög um barnaskóla eru sett í nóvember 1907 en áður höfðu verið sett lög 1880 um „uppfræðing barna í skript og reikningi“. Lögin sem voru sett 1907 komu til framkvæmda 1908 og voru þá öll börn skólaskyld frá 10 til 14 ára aldurs og skyldu forráðamenn sæta viðurlögum ef þeir fylgdu ekki eftir lögum þessum um fræðslu barna. Skv. fundargerðum hreppsnefndar og fræðslunefndar Hofshrepps var hreppnum skipt í tvö fræðsluhéruð frá 1908 til a.m.k. 1922. Var þá kennt á fleiri stöðum í ytri hluta hreppsins en innri hlutinn var Óslandshlíð og bæir í Deildardal sunnan Deildardalsár. Þar var alltaf kennt á Hlíðarhúsi og gengu börnin úr Óslandshlíð í skólann, en börnum úr Deildardal var komið fyrir á bæjum í nágrenni Hlíðarhúss. Þessi skipting hefur vakið athygli mína og er greinilegt af fundargerðum og frásögnum að töluvert ósamkomulag hefur verið um skólamál í Hofshreppi allan þann tíma sem skóli starfaði á Hlíðarhúsinu. Mér hefur ekki tekist að finna neinar frekari heimildir um hvernig fræðsludeildum var háttað í öðrum sveitarfélögum í Skagafirði, en hugsanlegt er að einhverjar heimildir finnist um það á Landsskjalasafni. Í skrifum Bjarna frá Miðhúsum nefnir hann endurminningar Sölva Sigurðssonar á Undhóli sem var í skólanum í kringum 1910 og eru þar nokkuð greinargóðar lýsningar á húsnæði í gamla húsinu sem byggt var 1903 og púltum sem notuð voru. Ekkert virðist hafa verið af námsgögnum og börnin komið með bækur með sér að heiman og fengið lánað af kennara eða öðrum. Sölvi hafði lagt áherslu á það hversu þakklátur hann var fyrir að hafa getað gengið í skóla svo nálægt heimili sínu. Árið 1909, 1911 og 1912 skrifar Sigurður Sigurðsson kennari á Hólum í Hjaltadal skýrslu um ástand skólans, en árið 1910 er það Brynleifur Tobiasson í Geldingarholti sem skrifar bréf til fræðslunefndar Óslandshlíðarskóla. Virðast þeir hafa verið tilnefndir eftirlitsmenn og gegnt svipuðu hlutverki og prófdómari seinna meir. Í bréfum þeirra eru athyglisverðar lýsingar á kennsluháttum og frammistöðu nemenda í heild sinni. Ekki voru fleiri slík bréf eftir 1912 og engir nemendur nefndir á nafn. Eftirfarandi skilgreiningar er að finna í íslenskri orðabók um hugtökin farskóli, farkennsla og farkennari farskóli = farkennslustofnun, skóli sem hefur ekki sérstakt hús en er til skiptis á heimilum í fræðsluhéraðinu farkennari = kennari í farskóla, maður sem annast farkennslu farkennsla•farandfræðsla, umferðarkennsla, barnakennsla án skólahúss sem fer fram (til skiptis) á heimilum í fræðsluhéraðinu•önnur kennsla sem fram fer án fasts aðseturs Óslandshlíðingar höfðu aldrei skóla til skiptis á heimilum sínum nema vera kann að það hafi eitthvað verið um skipulega kennslu á heimilum fyrir 1903. Um það hef ég engar heimildir nema móðir mín segir mér að amma hennar Anna Rögnvaldsdóttir á Marbæli hafi fengið uppfræðslu á æskuheimili sínu Óslandi. Ekki er ótrúlegt að börnum hafi eitthvað verið safnað saman og að bændur og búalið hafi skipst á um að kenna. Um þetta finnast engar heimildir og ekki heldur hvernig ráðningu kennara var háttað á Hlíðarhúsi frá 1903 til 1908 og sennilega hafa bændur borgað kennsluna úr eigin vasa. Þetta eru þó eingöngu tilgátur. Frá 1908 ber sveitarfélagið alfarið ábyrgð á skólahaldi og að uppfræðslulögum sé fylgt. Sveitarfélaginu Hofshreppi var eins og áður er sagt skipt í tvö fræðslusvæði. Innra fræðsluhéraðið hafði eingöngu skóla á Hlíðarhúsinu og þar með er útilokað að segja að farskóla hafi verið á svæðinu. Skólinn hafði alla tíð fast aðsetur á Hlíðarhúsi. Ytra svæði hreppsins hafði ekkert hús á þessum tíma og eingöngu er kennt á heimilum m.a. var kennt á Kambi í Deildardal og Bæ á Höfðaströnd. Þar var farskóli skv. skilgreinigu orðabókar. Fræðsluhéruðunum er svo slegið saman á milli 1920 og 1930. Þá er ráðinn farkennari og stundum tveir til að sinna sameiginlegu fræðsluhéraði í sveitarfélaginu. Þar með er farskólaformið óumdeilanlegt í fræðsluhéraðinu og Hlíðarhús hluti af því. Í samantekt Björns Björnssonar um skólamál í Hofsós frá 2007 kemur fram að mikil fundarhöld og ósamkomulag var um fyrirkomulag skólamála á svæðinu. Mikið var rætt um heimavistarskóla og keyrslu skólabarna og þótti hvorugur kosturinn góður. Óslandshlíðingar stóðu harðast á móti breytingum enda höfðu þeir eigið skólahús og börn þeirra gátu gengið í skólann. Börn annars staðar úr sveitafélaginu var í mörgum tilfellum komið fyrir á bæjum í kringum skólastaðina. 1947 er sveitarfélaginu skipt og Hofsós sem þá er orðinn töluverður þéttbýliskjarni verður eigið sveitarfélag. Um það leyti er byggt þar eigið skólahús og fastur skóli stofnaður. Fyrir þennan tíma hafði verið kennt m.a. í Bæ og Mýrarkoti á Höfðaströnd, en því er þá hætt. Hvergi er þá skóli annars staðar í hinu nýja sveitarfélagi Hofshreppi enn á Hlíðarhúsi. Sum börn úr utanverðum hreppnum munu hafa gengið niður í Hofsós. Öðrum er komið fyrir á bæjum í Óslandshlíð þar sem þau geta gengið á Hlíðarhús. Eingöngu er ráðinn einn kennari við Hlíðarhús sem ekki kennir annars staðar og er þar með ekki hægt að túlka skólahald sem farkennslu eða að þar sé farkennari. Á þessum árum er búið að breyta fræðslulögum og færa fræðsluskyldan aldur niður í 7 ára. Hægt var þó að fá undanþágu frá því, en viðmælendur mínir úr Óslandshlíð byrjuðu flestir 7 ára í skóla síðan þeir gátu gengið frá heimilum sínum. Börn annarssstaðar úr sveitarfélaginu komu yfirleitt seinna. Lög og reglugerðir sem kennt var eftir voru öðru vísi en í sveitum, en þéttbýli sama hvort um var farskóla að ræða eða ekki. Þegar farkennari sá um kennsluna á vegum sveitarfélagsins voru börnin í skólanum hálfan mánuð á hverjum stað. Á 6. áratugnum er fyrirkomulagið þannig að skipt var í yngri og eldri deild, og var yngri deildin í viku og eldri deildin í tvær vikur. Árið 1962 kemur fram krafa frá ytri hluta hreppsins að fá skóla þangað. Börn voru þá svo mörg í þeim hluta að erfitt var að koma þeim fyrir. Þar með er ákveðið að kenna í Mýrarkoti og Hlíðarhúsi og fallið til gamla fyrirkomulagsins með að kenna hálfan mánuð á hvorum stað og öllum árgöngum saman. Þetta var þó aldrei nema þrjú ár og skólaárið 1965 til 1966 var kennt eingöngu á Vatni á Höfðaströnd og þá hafin skólakeyrsla í sveitarfélaginu. Það mun vera eina árið sem ekki var kennt á Hlíðarhúsinu í sjötíu ára sögu skólans. Haustið 1966 er skólinn fluttur inn á Hlíðarhús aftur og skólakeyrsla úr hreppsfélaginu þangað. Börn úr Unadal og Höfðaströnd var þá keyrt fram hjá skólanum á Hofsósi a leið í skólann. Keyra þurfti upp í Deildardal líka og niður hann aftur áður en keyrt var inn í Óslandshlíð. Árið 1967 er sótt um að skóli á Hlíðarhúsi verði fastur skóli og þar með var ráðinn skólastjóri og skólaárið lengt úr 6 mánuðum í 7 mánuði á ári. Það breytti þó engu því samtímis var hætt að kenna á laurgardögum. Á þessum árum eru farskolar nánast horfnir og þó ennþá sé kennt á heimilum einhvers staðar á landinu er það yfirleitt á einu heimili. Mjög er á reiki hvenær farskóla er hætt í ýmsum sveitarfélögum, en kennsla sveitabarna er ennþá mun minni enn barna í þéttbýli. Hugtökin farskóli og sveitaskóli renna víða saman, og óljós mörk eru á sveitakennurum og farkennurum skv. ýmsum greinum um skólamál á síðustu öld. Ég var í skóla á Hlíðarhúsinu frá 1966 til 1970. Rafmagn kom í Óslandshlíðina 1964 og þá eru olíuofnar fjarlægðir sem voru orðnir stórhættulegir því olíuflekkir voru í kringum þá og eingöngu voru olíulampar og kerti til lýsinga. Rennandi vatn kom 1967 og 1968 er sett upp klósett. Fyrir þann tíma var eingöngu kamar norðan við húsið. Fyrstu tvö árin sem ég var í skóla þar var ég í yngri deild og kennt þriðju hverju viku í u.þ.b. sex mánuði. Það má gera ráð fyrir að ég hafi verið í skóla 6 til 7 vikur eða milli 40 og 50 daga á ári. Seinni tvö árin var ég í eldri deild og hef þá haft um 12 til 14 vikur á ári. Þetta var gríðarlegur munur í þéttbýli þar sem börn gengu í skóla á hverjum degi og skólaárið var lengra. Það er óumdeilanlegt að á þessum tíma urðum við sveitabörnin útundan og höfðum ekki sömu möguleika þegar áfram var haldið. Skólahald lagðist endanlega niður á Hlíðarhúsi 1973. Kennsluaðferðir voru hefðbundnar eftir því sem ég kemst næst í þau 70 ár sem skóli starfaði þar, en það er athyglisvert að lesa skif áðurnefnds Sigurðar Sigurðssonar kennara við bændaskólann á Hólum í Hjaltadal um lestrarskilning barna og þörf á að leggja meiri áherslu á hann fyrir rúmum 100 árum síðan. Min lestrarpróf í barnaskóla miðuðust eingöngu við lestrarhraða og svo var í áratugi. Skv. viðmælendum mínum og athugunum á bókakosti á þessum árum var eina breytingin áratugum saman að bókarkápum og stundum teikningum var breytt. M.a. var Íslandssaga Jónasar frá Hriflu mjög trúlega kennd þar frá því hún kom út 1915 og þar til skólahaldi lauk 1973. Hún er langlífasta kennslubók á Íslandi og var notuð til kennslu í 70 ár. Einnig var sungið töluvert og þá fyrst og fremst ættjarðarlög, en einnig sálmavers. Síðust áratugina var alltaf sungið til skiptis ”Ástarfaðir himinhæða” eða ”Ó faðir gjör mig lítið ljós” á morgnana áður nemendur settust niður og kennsla dagsins hófst. Farið var út í frímínútur, sumir fóru í fótbolta, farið var í eyjuleik og fleiri slíka eltingarleiki. Leikfimi var upp og ofan, en það kom varla að sök þar sem mörg börn gengu marga kílómetra í skólann og eftir að skólakeyrsla hófst voru alltaf hreyfingarleikir úti í frímínútum. Aðstaða til handavinnukennslu var engin, en drengir söguðu út í krossvið og stúlkur prjónuðu og saumuðu með tilsögn einhverra kvenna úr sveitinni þar sem allflestir kennarar voru karlkyns. Heimilisfræði eða matreiðsla var aldrei kennd. Enginn af þeim sem ég hef talað við hefur lýst skólahaldi öðru vísi, en þess sem ég minnist sjálf. Sérkennsla þekktist ekki, en í skrifaðri ræðu Bjarna Á. Jóhannssonar lýsir hann hvernig það var að kenna mörgum árgöngum saman og ekki var um að ræða að kenna öllum sama námsefni. Slíkt er kallað einstaklingsmiðað nám í dag og mikil áhersla lögð á það á Vesturlöndum. Lestrarörðugleikar voru sannarlega til og nokkuð víst að þónokkur börn liðu fyrir það. Farskólar voru tiltak síns tíma í byrjun 20. aldar, en voru olnbogabarn skólakerfisins. Ég ólst upp við að bera virðingu fyrir því að farskóli hefði aldrei verið í Óslandshlíð. Að setja upp minnismerki um farskóla sem var fastur á sama stað í 64 ár eða frá 1903 til 1967 stenst engan veginn og byggir á hugtakamisskilningi heimamanna sem síðan er staðfestur af menntamálaráðuneytinu. Rök þeirra sem stóðu að þessu þegar þau voru spurð hvernig þeim dytti í hug að þarna hefði verið farskóli var að menntamálaráðuneytið hefði samþykkt það. Skv. upplýsingum úr menntamálaráðuneytinu var það rætt að þetta væri ekki rétti staðurinn fyrir minnismerki um farskóla, en samt var samþykkt að veita styrk til að minnast farskóla. Upplýsingar á minnisvarðanum eru óljósar og engar heimildir um hvaðan þær voru teknar og ekki finnast upplýsingar um hvort leyfi hafi fengist hjá einstaklingum sem eru á myndum. Þetta getur því ekki annað en talist óvandað og engar heimildir fyrir framtíðina. Ekki þótti ástæða til að minnast síðustu sex áranna sem skóli starfaði á Hlíðarhúsinu og ekkert um þau nefnt. Minnisvarðinn sem menntamálaráðuneytið stuðlaði að er settur á grunn gamla skólahússins þar sem aldrei var farskóli eða kennt eftir farskólaformi. Hvergi er þessa félagslega framtaks minnst sem ég hef gert grein fyrir þegar bindindisfélagið Tilreyndin er stofnað sem enn er starfandi sem íþróttafélagið Neisti. Mér líður eins og valtað hafi verið yfir minningu forfeðra og formæðra minna sem sýndu mikinn stórhug og framtíðarsýn, og það með stuðningi og styrk menntamálaráðuneytisins. Heimildir eru fengnar á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga, m.a.úr fundargerðum frá skólanefndum og hreppsnefndum og skrifuðum upplýsingum frá þeim feðgum Jóhanni Ólafssyni og Bjarna Á. Jóhannssyni í Miðhúsum. Einnig úr ritaðri ræðu Bjarna sem Kristín dóttir hans lét mér í té. Samtölum við fyrrverandi nemendur úr Óslandshlíð, eigin minningum og blaðagreinum. Einnig var stuðst við eftirfarandi rit: Loftur Guttormsson (ritstjóri) 2008a. Almenningsfræðsla á Íslandi 1880 til 2007. Reykjavík Háskólaútgáfan. Ég vil þakka öllum viðmælendum mínum og ekki síst vil ég þakka Kaupfélagi Skagfirðinga sem hefur veitt mér styrk tvö ár í röð til að vinna að söfnun upplýsinga um minn gamla barnaskóla. Ingibjörg Kristín Jónsdóttir frá Óslandi í Óslandshlíð í Skagafirði. Doktor í menntunarfræðum og háskólakennari í Noregi.
Í skugga virkjana, þegar náttúran fær ekki að tala: Hvammsvirkjun lamin í gegn með góðu og illu Gunnar Þór Jónsson,Svanborg R. Jónsdóttir Skoðun
Hvað hefur áunnist á 140 dögum? Heiða Björg Hilmisdóttir,Dóra Björt Guðjónsdóttir,Sanna Magdalena Mörtudóttir,Helga Þórðardóttir,Líf Magneudóttir Skoðun
Á hvaða vegferð er ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur gagnvart sjávarútvegssveitarfélögunum? Anton Guðmundsson Skoðun
Skoðun Á hvaða vegferð er ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur gagnvart sjávarútvegssveitarfélögunum? Anton Guðmundsson skrifar
Skoðun Hvað hefur áunnist á 140 dögum? Heiða Björg Hilmisdóttir,Dóra Björt Guðjónsdóttir,Sanna Magdalena Mörtudóttir,Helga Þórðardóttir,Líf Magneudóttir skrifar
Skoðun Í skugga virkjana, þegar náttúran fær ekki að tala: Hvammsvirkjun lamin í gegn með góðu og illu Gunnar Þór Jónsson,Svanborg R. Jónsdóttir skrifar
Skoðun Fjármálalæsi í fríinu – fjárfesting sem endist lengur en sólbrúnkan! Íris Björk Hreinsdóttir skrifar
Skoðun Flugnám - Fyrsti hluti: Menntasjóður námsmanna og ECTS einingar Matthías Arngrímsson skrifar
Í skugga virkjana, þegar náttúran fær ekki að tala: Hvammsvirkjun lamin í gegn með góðu og illu Gunnar Þór Jónsson,Svanborg R. Jónsdóttir Skoðun
Hvað hefur áunnist á 140 dögum? Heiða Björg Hilmisdóttir,Dóra Björt Guðjónsdóttir,Sanna Magdalena Mörtudóttir,Helga Þórðardóttir,Líf Magneudóttir Skoðun
Á hvaða vegferð er ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur gagnvart sjávarútvegssveitarfélögunum? Anton Guðmundsson Skoðun