Körfubolti

Dómarasagan var skrifuð í Þorlákshöfn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Talið frá vinstri: Ernir Kristinsson, Kristinn Óskarsson og Jón Guðmundsson.
Talið frá vinstri: Ernir Kristinsson, Kristinn Óskarsson og Jón Guðmundsson. Mynd/Fésbókin
Það var söguleg stund í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld þegar Haukar unnu 99-71 sigur á heimamönnum í 17. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta.

Dómarar leiksins komu nefnilega allir úr sama félagi og það hefur aldrei gerst í deildarleik eftir að þriggja dómara kerfið var tekið upp í úrvalsdeildinni.

Kristinn Óskarsson, Jón Guðmundsson og Ísak Ernir Kristinsson dæmdu leikinn í kvöld en þeir koma allir úr Keflavík og dæma að sjálfsögðu fyrir sitt félag.

Ísak Ernir er sonur Kristins en Kristinn Óskarsson og Jón Guðmundsson hafa báðir verið kosnir bestu dómarar tímabilsins.

Ísak Ernir Kristinsson birti mynd af Keflvíkingunum þremur á fésbókarsíðu sinni í kvöld.

„Söguleg stund. Í fyrsta sinn sem þrír dómarar frá sama félagsliði dæma saman leik í efstu deild karla. Ekki verra að við erum allir feðgar, bæði gena- og körfuboltalega séð," skrifaði Ísak undir myndina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×