Viðskipti innlent

Alcoa hafnar ásökunum um að koma sér undan skattgreiðslum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Alcoa Fjarðaál.
Alcoa Fjarðaál. Vísir/Valli
Talsmaður Alcoa hafnar því að fyrirtækið reyni að koma sér undan því að greiða skatta á Íslandi. Eva Joly, þingmaður á Evrópuþinginu, sagði í Kastljósi í gær að gervilán sem tekin væru í þeim tilgangi að komast hjá tekjuskattsgreiðslum og vísaði hún þar til gríðarhárra vaxtagreiðslna sem farið hafa frá Alcoa til systurfélags í Lúxemborg vegna skulda.

Í athugasemd við frétt Vísis frá því í gærkvöldi um ummæli Evu Joly segir Dagmar Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins, að Alcoa greiði árlega um 1,5 milljarð króna í skatta og opinber gjöld. Þá sé fjárfestingasamningur fyrirtækisins við stjórnvöld skýr hvað varðar heimild til lántöku frá móðurfélaginu skýr.

Sjá einnig: Eva Joly segir Alcoa ekki mega nota glufu í skattalögum

„Því fer fjarri að fyrirtækið sé að reyna að koma sér undan því að greiða skatta,“ segir hún í athugasemd sinni. „Það að fyrirtækið greiði ekki enn sem komið er tekjuskatt er hluti af eðlilegu ferli og orsakast af gríðarstórri fjárfestingu.“

Dagmar segir að frá upphafi hafi verið ljóst að fjármagna þyrfti þá dýru framkvæmd sem bygging Fjarðaáls var og að heimild Alcoa á Íslandi til lántöku frá móðurfélagi sínu hafi verið skýr í fjárfestingasamningi sem félagið gerði við íslensk stjórnvöld árið 2003. „Samningurinn var samþykktur á Alþingi og ekkert ófyrirséð hefur gerst við framkvæmd hans eða fjármögnun á Íslandi. Alcoa hefur virt samninginn í einu og öllu,“ segir hún.

Fyrir liggur að Fjarðaál hefur ekki greitt tekjuskatt hér á landi síðan 2003 vegna mikillar skuldsetningar félagsins. „Með batnandi afkomu mun fyrirtækið væntanlega skipa sér ofarlega á lista tekjuskattsgreiðenda á Íslandi þegar fram líða stundir, að auki við það mikla framlag sem kemur frá fyrirtækinu nú þegar eftir aðeins fárra ára starfsemi,“ segir Dagmar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×