Viðskipti innlent

Stofna nýjan 4 milljarða sprotasjóð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Landsbréf hf. í samstarfi við SA Framtak GP ehf. hafa lokið 4 milljarða króna fjármögnun á Brunni vaxtarsjóði slhf. Sjóðnum, sem rekinn verður í formi samlagshlutafélags, er ætlað að fjárfesta í íslenskum sprota- og vaxtarfyrirtækjum.  Hluthafar í sjóðnum eru Landsbankinn, 7 lífeyrissjóðir, nokkrir einkafjárfestar, auk SA Framtaks GP sem er jafnframt ábyrgðaraðili samlagshlutafélagsins.  Landsbréf munu annast rekstur sjóðsins í samstarfi við SA Framtak GP.  Sjóðstjórar sjóðsins eru þeir Helgi Júlíusson frá Landsbréfum ásamt Sigurði Arnljótssyni og Árna Blöndal frá SA Framtaki GP.

Sjóðurinn mun á næstu 3-5 árum fjárfesta í íslenskum sprota- og vaxtarfyrirtækjum og lögð verður áhersla á gjaldeyrisskapandi fyrirtæki sem hafa burði til þess að vaxa og auka tekjur sínar hratt án þess að kostnaður hækki að sama skapi. Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að þær atvinnugreinar sem einkum verður horft til séu: hugbúnaður, veflausnir, afþreyingariðnaður, hátækni, líftækni, orkuiðnaður, sjávarútvegstækni og matvælaframleiðsla.

Áhersla verður lögð á að fyrirtækin búi yfir samkeppnisforskoti í formi þekkingar, einkaleyfis eða viðskiptahugmyndar og að frumkvöðlateymið sé framúrskarandi á sínu sviði.  Áætlað er sjóðurinn muni fjárfesta í 10-15 fyrirtækjum og að hver fjárfesting verði á bilinu 100 - 500 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn verði í flestum tilvikum leiðandi fjárfestir og að fulltrúar hans muni setjast í stjórn þeirra fyrirtækja sem fjárfest verður í.

„Við sjáum mörg tækifæri í íslenskum sprota- og vaxtarfyrirtækjum . Það á m.a. rætur að rekja til þess að hér er mikið framboð af spennandi fjárfestingakostum en lítið hefur verið um fjármagn,“ segir Árni Blöndal hjá SA Framtaki GP í tilkynningu.   






Fleiri fréttir

Sjá meira


×