Lífið

Vigdís Hauksdóttir handleggsbrotin: Rann í mikilli hálku á Grænlandi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá hvar Vigdís brotnaði.
Hér má sjá hvar Vigdís brotnaði.
Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, rann í hálku í heimsókn sinni á Grænlandi og braut upphandleggsbein.

„Það kom ísregn í fimmtán stiga frosti og það varð alveg gríðarlega mikil hálka. Ég rann á klakabunka sem var bara eins og hið besta skautasvell," segir Vigdís í samtali við Vísi, frá Landspítalanum.

Ekki var hægt að setja Vigdísi í gipsi, vegna þess hvar brotið var. „Ég var sett í fatla. Flugið heim til Íslands var rosalega sársaukafullt. Það var mikill hristingur á leiðinni og það var sárt þegar handleggurinn hreyfðist," bætir hún við.

Vigdís þarf á aðgerð að halda, hún þarf að fá nagla í upphandlegginn.

Hún verður frá þingstörfum á meðan. „Þetta hitti nú samt vel á. Ég missti af deginum í dag og missi af morgundeginum. Síðan kemur kjördæmavika. Við í Framsókn ætlum að ferðast um landið. Ég var bókuð á tvo fundi. Sigrún Magnúsdóttir hleypur í skarðið fyrir mig á einum fundi en svo reikna ég með því að vera komin á fætur á fimmtudaginn í næstu viku," segir þingkonan ákveðin og full af hörku. Ef hún verður lengur frá þingstörfum þyrfti að kalla inn varaþingmann hennar, sem er Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.

Hún segir að þrátt fyrir leiðilegan endi hafi ferðin til Grænlands verið ákaflega skemmtileg og fræðandi. Vigdís var þar í heimsókn sem meðlimur Vestnorræna ráðsins. „Þetta er í annað sinn sem ég kem þarna og landið er alveg stórkostlegt. Grænland er fullt af auðlindum. Þetta er lítil eyþjóð sem í risastóru landi sem glímir við það að vinna úr öllum auðlindunum. Svolítið eins og við." Vigdís dvaldi í bænum Ilulissat og segir umhverfið hafa verið einstaklega heillandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×