Handbolti

Sænski varnarmúrinn áfram ógnarsterkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Niclas Ekberg skoraði þrjú mörk í kvöld.
Niclas Ekberg skoraði þrjú mörk í kvöld. vísir/afp
Svíar unnu sinn þriðja sigur í jafnmörgum leikjum á HM í Katar þegar þeir báru sigurorð af Alsír í kvöld, 27-19. Svíþjóð er nú eitt á toppi C-riðils með sex stig, stigi á undan Frökkum sem gerðu jafntefli við Ísland í kvöld.

Sem fyrr var varnarleikur Svía gríðarsterkur en liðið hefur aðeins fengið á sig 57 mörk í leikjunum þremur sem búnir eru.

Svíar byrjuðu leikinn af miklum krafti og eftir 11 mínútna leik var staðan orðin 7-1. Í hálfleik var munurinn níu mörk, 15-6.

Sænska liðið náði mest 13 marka forskoti í seinni hálfleik, 23-10, en Alsíringar náðu að laga stöðuna á lokakaflanum. Þegar uppi var staðið munaði átta mörkum á liðunum, 27-19.

Jonas Källmann var markahæstur í liði Svíþjóðar með sex mörk úr jafn mörgum skotum en línumaðurinn Andreas Nilsson kom næstur með fjögur mörk.

Hichem Daoud var markahæstur hjá Alsír með sex mörk en liðið hefur tapað öllum þremur leikjum sínum og situr stigalaust á botni C-riðils ásamt Tékklandi sem beið lægri hlut fyrir Egyptalandi fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×