Innlent

Afnema viðbótargjald fyrir notendur Ferðaþjónustu fatlaðra

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
Velferðarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi ráðsins í dag að afnema viðbótargjald fyrir notendur Ferðaþjónustu fatlaðs fólks. 1.100 króna gjald fyrir hverja ferð umfram 60 ferðir á mánuði verður fellt niður og miðað verður við hálft almennt gjald í strætó.

Í tilkynningu frá Velferðarráði kemur fram að ákveðið hafi verið að fresta ákvörðun vegna breytinga á reglum um hámarksfjölda ferða til næsta fundar, sem fer fram þann 5. febrúar. Það var gert í ljósi ábendinga sem fram komu í áliti Umboðsmanns Borgarbúa.

„Áfram verður fundað með Strætó og fylgst náið með framkvæmd þjónustunnar. Borginni er í mun að framkvæmd Ferðaþjónustu fatlaðs fólks gangi eins vel og kostur er og að breytingar á fyrirkomulagi þjónustunnar verði til að bæta hana.Velferðarráð fylgist áfram með framkvæmd þjónustunnar eins lengi og þurfa þykir,“ segir í tilkynningunni.

Teknar voru saman tölur um þjónustu Ferðaþjónustunnar í september. Þar kom fram að heildarfjöldi notenda var 706 og þar af voru karlar 53 prósent og konur 47 prósent.

Heildarfjöldi ferða var 19.199, meðalfjöldi ferða pr. notenda var 27 ferðir, fjöldi notenda sem fór fleiri en 60 ferðir var 7,6 prósent, fjöldi ferða umfram 60 ferðir alls 3,3, prósent. Fjöldi notenda sem fór fleiri en 80 ferðir 1,3 prósent, fjöldi ferða umfram 80 voru alls 0,3 prósent og fjöldi samdægursferða var alls 1,2 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×