Handbolti

Danir náðu bara jafntefli á móti Argentínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Guðmundur Guðmundsson tókst ekki að vinna sinn fyrsta leik á stórmóti sem þjálfari danska landsliðsins í handbolta en liðið náði bara 24-24 jafntefli á móti Argentínu í kvöld.

Diego Simonet tryggði Argentínumönnum jafntefli 20 sekúndum fyrir leikslok en danska liðið náði ekki að nýta lokasókn sína. Mikkel Hansen átti lokaskot leiksins úr aukakasti en það var varið.

Argentínska liðið skoraði þrjú síðustu mörk leiksins og danska liðið náði ekki að skora síðustu fimm mínútur leiksins.

Danir voru í góðum málum framan af leik, komust mest sjö mörkum yfir (13-6) en leiddu með fimm mörkum í hálfleik, 13-8.

Danir náðu sex marka forskoti í byrjun seinni hálfleiks, 17-11, en þá komu fjögur mörk í röð frá argentínska liðinu.

Danska liðið komst aftur þremur mörkum yfir, 24-21, þegar fjórar mínútur voru eftir en Argentínumenn skoruðu þrjú síðustu mörkin og tryggðu sér eitt stig.

Mikkel Hansen skoraði bara tvö mörk í leiknum en Anders Eggert var markahæstur í liðinu með fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×