Handbolti

Landsliðsmaður Dana nefbrotnaði á æfingu hjá Guðmundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Morten Olsen.
Morten Olsen. Vísir/Getty
Guðmundur Guðmundsson undirbýr nú danska handboltalandsliðið fyrir Heimsmeistaramótið í Katar sem hefst 15. janúar næstkomandi en danska liðið er eitt af þeim sigurstranglegustu á mótinu í ár.

Það er greinilega vel tekið á því á æfingunum hjá Guðmundi því danski leikstjórnandinn Morten Olsen nefbrotnaði á æfingu með landsliðinu í gær. Óvíst er hvort Olsen getur spilað með Dönum á heimsmeistaramótinu.

Morten Olsen var á leiðinni í hraðaupphlaup á æfingunni þegar hann lenti í samstuði við Rene Toft Hansen með þessum afleiðingum. Guðmundur Guðmundsson stöðvaði æfinguna samstundis enda ljóst á öllu að meiðsli Olsen væru alvarleg.

Morten Olsen spilar með Arnóri Atlasyni hjá franska liðinu St. Raphaël og honum var ætlað stórt hlutverk í danska liðinu.  Annar leikstjórnandi, Bo Spellerberg, er einnig meiddur og það stefnir í leikstjórnanda-hallæri hjá Guðmundi því Thomas Mogensen er auk þessa hættur að spila með landsliðnu.

Jyllands Posten segir frá því að það komi endanlega í ljós á miðvikudaginn hvort að Morten Olsen geti spilað með danska landsliðinu á heimsmeistaramótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×