Skoðun

Opið bréf til Árna Páls

Natan Kobeinsson skrifar
Kæri Árni Páll,

Nú fer að styttast í að frestur til að skila inn framboði til formanns Samfylkingarinnar renni út og eins og staðan er núna sýnist mér engin ætla að bjóða sig fram gegn þér. Þú hefur á formannstíð þinni staðið þig með prýði að mörgu leyti. Þú hefur talað fyrir mörgum hjartans málum jafnaðarmanna á borð við húsnæðis- og menntamál. Þú hefur gert Samfylkinguna að leiðandi afli í stjórnarandstöðu. Þú hefur talað gegn skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar og bent á að hún gagnist síst þeim efnaminni. Þrátt fyrir það er margt sem betur hefði mátt fara í formannstíð þinni og langar mig að benda á tvö atriði sem mér þykja standa upp úr í þeim efnum.

Það er óhjákvæmilegt að hefja gagnrýnina á því að tala um þjóðkirkjuna og háværan stuðning þinn fyrir því að mismuna trúfélögum með því að gefa einu trúfélagi stjórnarskrábundna æðri stöðu en öðrum líkt og raunin er nú. Þú hefur sagt að það séu sérstök rök fyrir samfylgd ríkis og kirkju en fátt hefur verið um svör við því hver þessu sérstöku rök eru. Það er mér og vafalaust mörgum öðrum jafnaðarmönnum ómögulegt að samþykkja slíkan stjórnarskrárbundinn ójöfnuð. Með þessu er ég ekki að biðja þig að gangast bak þinni persónulegu trú heldur fremur að taka til greina níundu grein yfirlýsingu grunngilda evrópuflokks jafnaðarmanna frá árinu 2011, það sem kveður á um að ríki og kirkja skuli vera aðskilin. Ef skoðanabræður okkar og systur í löndum eins og Pólandi, Ítalíu og víðar geta gert það, þá ættum við svo sannarlega að geta það.

Auk þess þætti mér gaman að sjá þig beita þér frekar í málefnum verkalýðsins. Við erum í öldu verkfalla af stærðrargráðu sem mín kynslóð hefur aldrei kynnst. Fyrsta læknaverkfall íslandssögunnar er nú ný yfirstaðið og allt of lítið hefur heyrist frá leiðtoga jafnaðarmanna sem á að vera hvað háværastur í því að krefjast leiðréttingar á launum þessar stéttar sem við getum ekki lifað án. Tónlistakennarar fóru einnig í verkfall og minnist ég þess ekki að það hafi yfirhöfuð ratað í umræðuna á Alþingi. Sú ríkisstjórn sem núna er við völd hefur set lögbann á fleira en eitt verkfall og þar að auki hótað lögbanni með þeim afleiðingum að ekkert varð úr verkfalli. Þetta sýnir hvað best mikilvægi þess að jafnaðarmenn séu í ríkisstjórn. Þessi lögbönn hafa flogið í gegn ef frá eru talin hávær mótmæli Helga Hjörvars þegar eitt af þessum lögbönnum var keyrt í gegnum þingið. Við jafnaðarmenn veðrum að standa vörð um verkfallsréttinn og verja hann með kjafti og klóm. Ég verð að viðurkenna það að ég sakna Árna Páls sem ég sá flytja ræðu við lok landsfundar 2011 þar sem þú talaðir af ástríðu um kjaramál og réttlátt samfélag.




Skoðun

Sjá meira


×