Innlent

Ráðist á vagnstjóra Strætó í Ártúni

Bjarki Ármannsson skrifar
Ráðist var á vagnstjóra Strætó í hádeginu í dag.
Ráðist var á vagnstjóra Strætó í hádeginu í dag. Vísir/Vilhelm
Ráðist var á vagnstjóra Strætó við stoppistöð í Ártúni í hádeginu í dag. Árásin var tilkynnt til lögreglu og vagnstjórinn leitaði sér aðstoð á slysadeild en að sögn Jóhannesar Svavars Rúnarssonar, framkvæmdastjóra Strætó, er hann ekki alvarlega særður.

Að sögn Jóhannesar var vagnstjórinn að stöðva tvo farþega sem reyndu að koma sér í vagninn án þess að borga fargjald þegar annar þeirra réðst á hann með höggum. 

„Vagnstjóranum var boðin öll sú aðstoð sem við getum veitt en svo treysti hann sér bara til að koma aftur til vinnu í fyrramálið,“ segir Jóhannes. Hann segir Strætó bs. líta öll atvik sem þessi, sem hafi átt sér stað óvenju oft upp á síðkastið, alvarlegum augum.

„Eitt skipti er allt of oft,“ segir hann. „Ég held að ég geti sagt að það hafi verið svona tvö, þrjú tilvik á síðustu þremur eða fjórum vikunum. Auðvitað hörmum við það að það sé ráðist á saklausa vagnstjóra sem eru bara að vinna sína vinnu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×