Sigurbjörg stendur nú fyrir sýningu á verkum sínum í Galleríi undir stiganum á bókasafni Þorlákshafnar, en hún sker sig að mörgu leyti frá öðrum myndlistarmönnum. Hún málar nefnilega á skóflur.
„Ég hef safnað skóflum í mörg ár. Þetta byrjaði nú bara með einni og svo jókst þetta og fólk fór að gefa mér skóflur. Ég nýti það sem aðrir henda,“ útskýrir Sigurbjörg og bendir á að hún finni mikið af efniviði í fjörunni.
Á sýningunni eru fjörutíu og þrjár skóflur sem Sigurbjörg hefur sankað að sér í gegnum tíðina og á þær málar hún helst andlit, fólk úr sveitinni og önnur fræg, og má til að mynda finna Móður Teresu á einni skóflunni.

„Ég spyr pendúlinn alltaf og hann svarar mér alltaf. Hann hefur reyndar ekki viljað gefa mér upp verð á tveimur verkum mínum, svo ég álít sem svo að ég ætti bara ekki að selja þau yfirhöfuð.“
Sigurbjörg hefur tröllatrú á pendúlnum, en hún telur hann hafa bjargað á sér bakinu og losað hana við verkjalyfin. „Hann harðbannar mér að borða flatkökur, rúgmjöl og ost. Síðan ég hætti að borða þetta, hef ég stórlagast,“ segir hún og bætir við að hún fari alls ekki í langferðir án þess að spyrja pendúlinn.
„Ég ákvað þó eitt verð sjálf, og það er á stóru skóflunni. Hana sel ég ekki undir hálfri milljón. En það er bara vegna þess að ég vil alls ekkert selja hana,“ segir þessi hressa listakona að lokum og skellir rækilega upp úr.