Fótbolti

David Villa aðalmaðurinn í fyrsta sigrinum á Yankee Stadium

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Villa fagnar hér marki sínu í leiknum í nótt.
David Villa fagnar hér marki sínu í leiknum í nótt. Vísir/AP
David Villa var með mark og stoðsendingu þegar New York City vann 2-0 sigur á New England Revolution í bandarísku fótboltadeildinni í nótt.

Þetta var fyrsti heimaleikur New York-liðsins í MLS-deildinni en liðið spilar heimaleiki sína á hinum heimsfræga Yankee Stadium sem er betur þekktur fyrir að hýsa hafnarboltaleiki.

David Villa skoraði fyrsta markið sem New York City skorar á heimavelli sínum en það skoraði hann snemma í fyrri hálfleik eftir laglega samleik við miðjumanninn Ned Grabavoy.

David Villa lagði síðan upp seinna mark liðsins fyrir Patrick Mullins en markið kom sex mínútum fyrir leikslok.

New York City var stofnað árið 2013 en félagið er samvinnuverkefni á milli hafnarboltafélagsins New York Yankees og enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City.

David Villa og félagar í New York City fá nýjan liðsfélaga eftir að ensku úrvalsdeildinni lýkur en þá kemur Frank Lampard til félagsins en hann er nú á láni hjá Manchester City.

Verðandi liðsfélagar Steven Gerrard í LA Galaxy björguðu stigi í 2-2 jafntefli á móti Portland Timbers þegar Alan Gordon skoraði jöfnunarmarkið í uppbótartíma. Portland-liðið komst tvisvar yfir í leiknum en Gyasi Zardes jafnaði í fyrra skiptið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×