Skoðun

Breytingatímar framundan

Steinþór Pálsson skrifar
Fáir trúðu því fyrir um  það bil 25 árum að flestir viðskiptavinir banka myndu nánast aldrei stíga fæti inn í þá. Hvern hefði órað fyrir því að bankar litu þessa þróun jákvæðum augum. Hvoru tveggja er nú samt staðreynd. Með stöðugum framförum í tækni er hægt að sinna bankaerindum í síauknum mæli með einföldum og ódýrum hætti hvar sem er.  Það skiptir máli. Einföld afgreiðsla kostar í raun yfir 200 sinnum meira í bankaútibúi en ef hún er framkvæmd rafrænt.

Notkun á netbanka og farsímavef Landsbankans fer stöðugt vaxandi, enda verðlaunaðir fyrir gott viðmót og þjónustu og langflestar færslur í bankanum eru nú með rafrænum hætti.  Samskipti og viðskipti fara í síauknum mæli fram í gegnum netið og á samfélagsmiðlum og bankinn mun halda áfram að þróa þjónustu á því sviði.  Í framtíðinni mun starfsfólk bankans sinna dýpri ráðgjöf og virðisaukandi þjónustu í vaxandi mæli en viðskiptavinir sjá sjálfir um einfaldari mál.

Heimurinn er að breytast hratt og þau fyrirtæki sem ekki taka mið af því verða einfaldlega undir og deyja. Krafan til Landsbankans er að hann sníði sér stakk eftir vexti og haldi úti nútímalegum rekstri með skilvirkum og hagkvæmum hætti sem skilar viðskiptavinum, eigendum og samfélaginu öllu ávinningi.  Að þessu vinnur bankinn markvisst en það kallar á sífellda endurskoðun á starfseminni og erfiðar ákvarðanir sem sumar hverjar munu sæta gagnrýni. Til að svara kröfum tímans verður að fjárfesta í nýjum tölvukerfum,  koma í veg fyrir sóun í húsnæðismálum og sennilega fækkar afgreiðslustöðum í framtíðinni. Þá er nauðsynlegt að nýta tækifæri til að draga úr kostnaði í íslenska bankakerfinu með því að bankar sameinist um kjarnakerfi og ýmsa stoðþjónustu.

Á undanförnum árum hefur mikil vinna hjá Landsbankanum farið í að aðstoða viðskiptavini í fjárhagslegum erfiðleikum og leiðrétta lán.  Landsbankinn gekk lengra en önnur fjármálafyrirtæki og lengra en stjórnvöld fóru fram á varðandi fjárhagslega endurskipulagningu heimilanna.  Þar má nefna einfaldari og hagfelldari 110% leið, og lánsveð þar meðtalin, auk lækkun annarra skulda, þar sem hver einstaklingur gat fengið skuldir lækkaðar um 4 milljónir króna að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Tugir þúsunda viðskiptavina nutu þessara úrræða Landsbankans. Þá lauk bankinn nýverið leiðréttingu á útreikningi 35.000 lána með ólögmætri gengistryggingu til viðbótar við allar fyrri leiðréttingarnar.

Þegar allt er reiknað saman kemur í ljós að Landsbankinn hefur borgað rúma 11 milljörðum króna of mikið fyrir þau lán heimilanna sem hann tók yfir við stofnun.  Sá halli, ef þannig má að orði komast, er vegna þess að Landsbankinn ákvað að ganga lengra í niðurfærslu skulda en lög eða samkomulag stjórnvalda við fjármálafyrirtæki gerðu kröfu um.  Á móti þessu tapi sem nemur 7% af fjárhæð lánanna, kemur jákvæð virðisbreyting á lánum stærri fyrirtækja að fjárhæð um 24 milljarðar, eða um 5% af verðmæti þeirra.

Landsbankinn hefur sett sér það markmið að vera traustur samherji í fjármálum.  Svo það náist þarf að byggja á framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini, hagkvæmum rekstri og traustri fjárhagsstöðu. Um leið verður bankinn að skila viðunandi arðsemi til lengri tíma þegar jákvæðum einskiptisliðum sleppir en þeir hafa litað hagnað bankans mikið á undanförnum árum. 

Höfundur er bankastjóri Landsbankans.




Skoðun

Sjá meira


×