Innlent

Venus NS heim um miðjan maí

svavar hávarðsson skrifar
Venus NS kemur fyrst til landsins af fimm nýjum skipum HB Granda.
Venus NS kemur fyrst til landsins af fimm nýjum skipum HB Granda. mynd/hbgrandi
Nýjasta fiskiskip HB Granda og íslenska flotans, Venus NS 150, er væntanlegt til heimahafnar á Vopnafirði upp úr miðjum næsta mánuði.

Venus er fyrst fimm skipa, sem HB Grandi hefur samið um smíði á hjá Celiktrans Deniz Insaat Ltd., en auk tveggja uppsjávarveiðiskipa nær samningurinn til smíði þriggja ísfisktogara. Verður hinn fyrsti þeirra, Engey RE, væntanlega afhentur um mitt næsta ár.

„Við erum búnir að fara í reynslusiglingu, sem gekk vel, og það kom ekkert upp sem skiptir máli,“ segir Þórarinn Sigurbjörnsson, sem haft hefur umsjón með smíði Venusar og systurskipsins Víkings AK 100 í Tyrklandi. Að sögn Þórarins voru það aðallega stillingar á búnaði sem farið var yfir í reynslusiglingunni. Venus mun leysa Lundey NS af hólmi.

Í kjölfar reynslusiglingar stóðst skipið stöðugleikaprófun með prýði. Næst á dagskrá er að skipið verður tekið í slipp 29. apríl og er reiknað með því að það verk taki tvo daga. Eftir slipptökuna verður hafist handa við að búa skipið undir heimferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×