Innlent

Skekkja í framlögum upp á 100 milljarða

stefán rafn sigurbjörnsson skrifar
Magnús segir að mikið vanti upp á til að ná 3 prósenta markinu.
Magnús segir að mikið vanti upp á til að ná 3 prósenta markinu. Fréttablaðið/Vilhelm
„Það kemur þarna í ljós að vísindastarf í landinu er verulega fjárvana,“ segir Magnús Karl Magnússon, forseti læknadeildar Háskóla Íslands.

„Vísindasamfélaginu hefur fundist að þessi grein hafi verið fjársvelt þrátt fyrir að opinberar tölur um framlög til vísinda og rannsókna hafi þótt sæmilegar frá árinu 2000, um 2,5 prósent til þrjú prósent af vergri landsframleiðslu.“

Magnús segir að eftir að Hagstofan hafi tekið við útreikningum á fjárframlögum til vísinda hafi nýlegir útreikningar sýnt fram á að greinin er verulega fjársvelt og fyrri útreikningar verið skakkir.

„Það kemur þarna í ljós að um þriðjungur fjármagnsins hefur ekki verið til staðar. Þetta þýðir að um rúmlega 100 milljarða króna skekkju er að ræða yfir síðastliðinn áratug,“ sagði hann.

Viðmið margra þjóða er að fjárframlög til vísinda og rannsókna nemi minnst þremur prósentum af vergri landsframleiðslu og það er það markmið sem Vísinda- og tækniráð hefur sett sér fyrir árið 2016.

Magnús segir að til þess að ná þessum markmiðum þurfi einfaldlega meira fjármagn og meiri fjárfestingu auk þess sem endurskoða þurfi alla umgjörð fjármögnunar. Hann bendir á að háskólar og rannsóknarsjóðir á Íslandi séu verulega fjársveltir í samanburði við önnur samanburðarríki.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segir að það þurfi að kanna málið betur og að þau muni hlusta eftir ráðleggingum Vísinda- og tækniráðs í þeim efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×