Viðskipti innlent

Vonast til að leggja ESÍ niður á næsta ári

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Stjórnendur Seðlabanka Íslands vonast til þess að hægt verði að leggja niður Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) á komandi ári enda hafi það aðeins átt að vera tímabundið.

Seðlabankinn hefur skilað greinargerð vegna spurninga umboðsmanns Alþingis um félagið.

Umboðsmaður Alþingis telur vafa undirorpið hvort skýr lagaheimild hafi verið fyrir stofnun einkahlutafélagsins Eignasafns Seðlabanka Íslands og var þetta meðal þess sem umboðsmaður spurðist fyrir um í bréfi sínu til Seðlabankas frá 2. október sl.

Eignasafn Seðlabanka Íslands, ESÍ, á eignir upp á hundruð milljarða króna sem ríkissjóður leysti til sín eftir banka- og gjaldeyrishrunið. 

Í greinargerð Seðlabankans um bréfið sem birtist í dag segir m.a:

„Mikilvægt er að efnahagsreikningur Seðlabankans endurspegli lögbundið meginhlutverk bankans. Því var ákveðið að aðgreina þær eignir sem tengdust bankahruninu og voru ekki tiltækar sem peningalegt stjórntæki frá öðrum eignum á efnahagsreikningi Seðlabankans.“

Í bréfinu segir að þessu markmiði hefði ekki verið hægt að ná fram á jafn skýran hátt ef eignir sem færðar voru ESÍ hefðu áfram staðið á efnahagsreikningi Seðlabankans án aðskilnaðar frá öðrum eignum. Síðan segir:

„Þegar kröfur hafa verið innheimtar og eignir seldar hefur félagið lokið hlutverki sínu og verður slitið. Jafnvel er vonast til þess að hægt verði að leggja niður ESÍ á komandi ári.“

Þegar stjórnvald tekur ákvörðun um ráðstöfun eigna ríkisins gilda um það reglur stjórnsýsluréttarins. Þetta kemur fram í dómum Hæstaréttar og eitt af því sem umboðsmaður nefndi í bréfi sínu til Seðlabankans og virtist hafa áhyggjur af, þ.e. að starfsmenn ESÍ kæmu fram eins og um einkahlutafélag væri að ræða án tengsla við ríkið.

Trausti Fannar Valsson dósent við lagadeild HÍ hefur tekið undir þessi sjónarmið og sagði eðlilegt að það þyrfti skýra lagaheimild. „Það er verið að færa starfsemi opinbers aðila yfir í hlutafélagaform. Það er að öllu jöfnu eðlilegt að Alþingi taki ákvörðun um slíka þætti vegna þess að við gerum greinarmun á starfsemi hlutafélaga og ríkisins,“ sagði Trausti m.a.

Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis. 365/GVA
Ekki hefðbundin stjórnsýsla

Um þetta segir í bréfi Seðlabankans: „Starfsemi félagsins felur ekki í sér hefðbundna stjórnsýslu, því hefur ekki verið falið að taka stjórnvaldsákvarðanir heldur hefur það með höndum innheimtu og fullnustu krafna og sölu fullnustueigna.“

Seðlabankinn hefur byggt heimild sína til þess að stofna einkahlutafélagið ESÍ aðallega á 17. gr. seðlabankalaga og á 3. gr. laga um einkahlutafélög til fyllingar. Í 1. mgr. 17. gr. seðlabankalaga er að finna heimild fyrir bankann til að stunda önnur banka- og verðbréfaviðskipti sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka. Í öðrum málslið sama ákvæðis segir síðan: „Í því skyni er bankanum meðal annars heimilt að eiga aðild að og hlut í fyrirtækjum og stofnunum á sviði kauphallarstarfsemi, verðbréfaskráningar og greiðslukerfa.“

Seðlabankinn áréttar þetta í umsögn sinni um bréf umboðsmanns. Svo gefa stjórnendur Seðlabankans lítið fyrir rökstuðning umboðsmanns fyrir því að ekki hafi verið skýr lagaheimild fyrir stofnun ESÍ með svofelldum orðum. „Í bréfi UA er hvorki gerð nein fullburða tilraun til þess að skýra ákvæði 17. gr. seðlabankalaga né heldur að hrekja áður fram komin lagarök bankans.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×