Innlent

Óvenju hátt hlutfall stendur við uppsagnir

Heimir Már Pétursson skrifar
Mun hærra hlutfall hjúkrunarfræðinga stendur við uppsagnir sínar á Landspítalanum en spítalinn hefur átt að venjast í fyrri kjaradeilum heilbrigðisstarfsmanna. Ráða þarf á annað hundrað hjúkrunarfræðinga til starfa en á meðan verður kostnaður við yfirvinnu mikill.

Það er ljóst að nýafstaðin kjaradeila hjúkrunarfræðinga við ríkið ristir mjög djúpt hjá mörgum hjúkrunarfræðingum. Það liggur fyrir að ríflega sextíu þeirra ætla að standa við uppsagnir sínar og uppsagnirnar gætu orðið fleiri.

Í langri og harðri kjaradeilu hjúkrunarfræðinga í vor sögðu 291 hjúkrunarfræðingur upp störfum og tóku margar uppsagnanna gildi hinn 1. september og nú í dag.

Þetta er meira en þið hafið vanist í fyrri deilum?

„Já. Við höfum venjulega séð í svona deilum að það hafi orðið á bilinu 5 til 10 prósent afföll. En þetta er alveg um 20 prósent núna,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landsspítalanum.

Erlendir hjúkrunarfræðingar dýrir

En áður en verkfallið hófst vantaði um eitt hundrað hjúkrunarfræðinga á Landsspítalann. Hingað til hefur þessu verið mætt með ótæpilegri yfirvinnu.

„Og gerir okkur þá náttúrlega erfiðara að reka spítalann innan fjárheimilda. Það er líklegt að við eigum bæði eftir að sjá afleiðingar í yfirvinnu og eins þurfum við kannski að skoða einhverjar breytingar á starfseminni,“ segir Sigríður.

Vandinn verði ekki leystur með ráðningu útlendra hjúkrunarfræðinga, sem reynslan sýni að sé dýrt og íslenskan sé líka mikilvæg í þessu starfi. Spítalinn sé í samkeppni um hjúkrunarfræðinga og sem betur fer sé töluverð ásókn í hjúkrunarfræðinám. Háskólarnir ráði hins vegar ekki við að mennta alla þá sem vilja.

„Við eigum ungt fólk sem hefur áhuga á því að vinna við þetta en við höfum ekki burði til að mennta fleiri en við gerum í dag,“ segir Sigríður. Vissulega ættu nýir kjarasamningar að hjálpa til við að freista fólks.

„Já vonandi ætti þetta að hjálpa til, að það hafi orðið ákveðin kjarabót. En við þurfum ekki síður að huga að umgjörðinni sem við höfum og getu háskólanna til að útskrifa fleiri nemendur,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×