Innlent

Fjórtán mánaða fangelsi: „Ég sting þig með fokking sprautunál“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Ég sting þig með fokking sprautunál.“
„Ég sting þig með fokking sprautunál.“ Vísir/Getty
Hæstiréttur staðfesti í dag fjórtán mánaða fangelsisdóm úr héraði yfir 25 ára karlmanni, Svani Birki Tryggvasyni, fyrir að hafa veist að þremur lögreglumönnum, hótað þeim líkamsmeiðingum og einnig fyrir vörslu fíkniefna. 

Þá var hann einnig ákærður fyrir endurtekin fjársvik að upphæð 160 þúsund krónur í heildina og ítrekaðan þjófnað, meðal annars á veskjum og greiðslukortum. Þá var hann stöðvaður undir stýri án ökuréttinda en í blóði hans mældist bæði amfetamín og MDMA. Auk þess stal hann söfnunarbauk ABC barnahjálpar úr söluturni.

Maðurinn játaði fíkniefnabrot sín og sömuleiðis þau ákæruatriði sem sneru að þjófnaði og fjársvikum. Hann neitaði hins vegar sök í valdstjórnsmálunum sem nánar er vikið að hér að neðan.

Áður gerst sekur um brot gegn opinberum starfsmönnum

Hann var sakaður um að hafa í ágúst 2013, eftir að hann var handtekinn í Austurstræti, rekið olnbogann í andlitið á lögreglukonu og skömmu síðar sparkað í brjóstkassann á lögreglumanni. Eftir flutning á lögreglustöðina við Hverfisgötu sömu nótt sparkaði hann í andlit þriðja lögreglumanns.

Þá hótaði hann lögreglumanni í Hafnarfirði líkamsmeiðingum við handtöku þann 5. október 2013. Aftur var maðurinn með amfetamín í fórum sínum. Sagði ákærði við lögreglumanninn: „Ég sting þig með fokking sprautunál“ og í kjölfarið bætti hann við „Á ég að stinga þig?“

Í dómnum kemur fram að Svani hlyti að hafa verið ljóst að slys gæti hlotist af spörkum hans við handtöku og hins vegar með því að hafa hótað lögreglumanni líkamsmeiðingum. Talið var að Svani hlyti einnig að hafa verið ljóst að slys gæti hlotist af spörkum hans við handtöku og því væri skilyrði um ásetning fullnægt. Þá þótti sannað að Svanur hafði hótað lögeglumanninum. Þá fékk hann hegningarauka þar sem hann hafði áður gerst sekur um brot af sömu tegund.

Hæstiréttur staðfesti 14 mánaða fangelsisdóm úr héraði. 


Tengdar fréttir

Réðist á þrjá og hótaði með sprautunál

Tuttugu og fjögurra ára karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í fjórtán mánaða fangelsi fyrir að hafa veist að þremur lögreglumönnum, hótað þeim líkamsmeiðingum og fyrir vörslu fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×