„Tónlistin verður eftir þrjú tónskáld, sem gerðu sig gildandi á 20. öld, Kurt Weill, Cole Porter og Rafael De Leon, þeir eru ólík tónskáld svo lagavalið er fjölbreytt,“ segir söngvarinn Bogomil Font þegar forvitnast er um jazzkvöld Kex Hostels í kvöld.
Hann ætlar að syngja og kannski banka eitthvað í kongatrommurnar, að eigin sögn.
Auk hans skipa hljómsveitina þeir Steinar Sigurðarson á saxófón, Árni Heiðar Karlsson á píanó og Óttar Sæmundsen á kontrabassa.
Bogomil kveðst alltaf vera í fornleifafræðinni hvað tónlistina varðar og meðal annars ætla dusta rykið af nokkrum lögum eftir Kurt Weill af plötu sem hann tók upp í Chigago árið 1993.
Tónlistin hefst kl. 20.30 og stendur í um tvær klukkustundir með hléi.
Kex Hostel er á Skúlagötu 28 og aðgangur í kvöld er ókeypis.
