Skoðun

Framtíðarsýn!

Helgi Björnsson skrifar
Ég sé fyrir mér háskóla þar sem hvatt er til uppörvandi sjálfsgagnrýni, stöðugrar sjálfskoðunar. Þar er reynt að taka á rótum mála. Þar fagna ráðsettir kennarar gagnrýni, taka vel í hugmyndir ungs fólks og yngjast við það sjálfir, haldast róttækir eins og þegar þeir voru sjálfir ungir.

Þessi skóli endurnýjar sig stöðugt, er því síungur, dregur að sér ungt fólk, hrærir saman námsmönnum og emerítusum, örvar, vekur og virkjar anda og krafta allra starfsmanna. Um hann leika nýjir straumar og ferskur andblær. Skólinn, stærsti vinnustaður landsins, er ekki fyrirtæki undir stjórn forstjóra heldur vinnustaður jafningja, þar sem markvisst er stefnt að samvinnu í stað harðar samkeppni og sérhagsmunagæslu þeirra sem þar hafa lengst verið. Boð koma ekki að ofan.

Skólinn lætur sig varða öll skólastig, sýnir örlæti við þjóðfélagið, eykur skrumlaust sjálftraust okkar eyjarskeggja. Fólk vill heyra hvað talsmaður skólans segir, það hlustar spennt vegna þess að hann hefur framtíðarsýn, skilaboð hans vekja umræðu í samfélaginu. Einnig hann hlustar. Hann er leiðtogi sem laðar aðra til samstarfs.

Þetta er mín sýn. Ég vil sjá Guðrúnu Nordal sem rektor skólans.

Helgi Björnsson

emeritus




Skoðun

Sjá meira


×