Lífið

Búa í Mongóla-tjaldi í sumar

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Bjarki Sólmundarson og Anne Rombach safna fyrir löggiltu eldhúsi á Karolina fund en þau þróa matvörur úr jurtum.
Bjarki Sólmundarson og Anne Rombach safna fyrir löggiltu eldhúsi á Karolina fund en þau þróa matvörur úr jurtum. mynd/góðgresi
Það er ekki manni bjóðandi að leigja í dag, þess vegna fengum við hugmyndina. Þetta er líka ævintýramennska. Við erum að smíða yurt, eða mongólskt tjald, sem við ætlum að búa í í sumar. Það þarf að hafa gaman af lífinu,“ segir Bjarki Sólmundarson myndlistarmaður en hann skipar myndlistarteymið Góðgresi, ásamt Anne Rombach.

Tjaldið er völundarsmíð, það samanstendur af timburgrind og dúk og er grindin sett saman á sérstakan hátt svo auðvelt sé að taka tjaldið niður og flytja. Smíðin er í fullum gangi og munu Bjarki og Anne gefa út leiðbeiningabækling um smíði yurta á hátíð sem fram fer á morgun klukkan 16 við LHÍ á Laugarnesvegi 91.

Tjaldsmíðin er þó ekki það eina sem þau eru að fást við en undanfarin tvö ár hefur Góðgresi þróað matvörur úr jurtum. Síðasta sumar ferðaðist Góðgresi um landið með ferðaeldhús og matbjó úr hráefni sem tínt var á staðnum og gaf, gegn frjálsum framlögum gesta. Þau verða einnig á ferðinni í sumar og nú á að koma vörunum á markað.

„Við notum hráefni eins og til dæmis kerfil og njóla,“ útskýrir Bjarki. „Við bæði búum til uppskriftir og söfnum uppskriftum frá fólki og þannig opnast nýr heimur á fjölbreyttri nýtingu hráefna. Vörurnar sem við erum tilbúin með á markað eru síróp, pestó, kerfilsafi og ósykruð saft úr berjum.“

Til að koma sér upp löggiltu eldhúsi hefur Góðgresi hafið fjármögnun gegnum Karolina fund og mun standa fyrir gjörningum og uppákomum í sumar, tengdum verkefninu. Hægt er að fylgjast með Góðgresi á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.