Innlent

Sumir vilja ferðast til Úkraínu

Freyr Bjarnason skrifar
Ástandið í Úkraínu virðist fara versnandi með degi hverjum.
Ástandið í Úkraínu virðist fara versnandi með degi hverjum. Fréttablaðið/AP
Ástandið í Úkraínu verður æ alvarlegra. Utanríkisráðuneyti Íslands gengur þó ekki jafnlangt og Þjóðverjar og Bandaríkjamenn sem hvetja borgara sína til að heimsækja landið ekki.

„Við höfum haldið viðvöruninni til fólks um að fylgjast vel með ef það hyggur á ferðir þangað. Það er ekki nóg að kíkja á ástandið einu sinni heldur verður að fylgjast með því reglulega alveg þar til þú ferð,“ segir Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi ráðuneytisins.

Þrátt fyrir ástandið í Úkraínu hefur verið nokkuð um að Íslendingar vilji sækja landið heim. „Við höfum heyrt í fólki sem er að velta því fyrir sér að ferðast þangað en ég hef ekki þá tilfinningu að þetta sé margt fólk sem fer þangað,“ segir Urður aðspurð.

Utanríkisráðuneytið er í sambandi við hin Norðurlöndin vegna Úkraínu. „Bretland og Norðurlöndin eru með mjög góðar síður þar sem þau uppfæra reglulega ferðaviðvaranir þannig að við hvetjum fólk sem ætlar þangað út að fylgjast með fréttum og skoða þessar síður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×