Skoðun

Hugleiðingar læknanema erlendis

Erna Markúsdóttir skrifar
Ég er læknanemi á 3. ári í Slóvakíu. Mér líkar vel í mínu námi – fæ góða kennslu og klíník. Þótt ég eigi þó nokkur ár eftir af mínu grunnnámi þá hef ég þungar áhyggjur þegar ég les fréttir að heiman á vefnum. Þar blasir við hver fréttin á fætur annarri þess efnis að læknar á Íslandi séu annað hvort að flytja úr landi eða snúa sér að einhverju öðru. Ég á erfitt með að skilja hvernig heilbrigðismál hafa getað þróast á þennan veg. Lausnin er eflaust ekki auðveld en felst allavega ekki í 3% launahækkun sem læknum hefur verið boðin.

Þegar dæmið er reiknað sé ég ekki fram á að við sem nú menntum okkur erlendis getum náð endum saman þegar við komum heim að námi loknu.

Grunnnámið mitt í JFM CU tekur sex ár og er allt á minn kostnað. Því kem ég til með að skulda um það bil 20 milljónir í verðtryggðum skuldum að því loknu. Þá á eftir að bætast við kostnaður við sérnám sem hleypur á milljónum.

Að sérnámi loknu verð ég líklegast komin á fertugsaldurinn, búin að vera erlendis frá 20 ára aldri að mennta mig. Ég mun ekki eiga neitt nema skuldir og mun þurfa að borga lánin mín upp. Miðað við kjör lækna á Íslandi í dag, mun ég ekki sjá mér fært að flytja heim til Íslands og stunda vinnu, þrátt fyrir að það sé það sem mig dreymir um að gera. Það verður bara einfaldlega ekki í boði fyrir mig að koma heim aftur.

Ég vona að heilbrigðiskerfinu okkar verði bjargað og laun lækna gerð samkeppnishæf á ný. Við erum að dragast aftur úr – og það á leifturhraða!




Skoðun

Sjá meira


×