Skoðun

Breytingar á akstursþjónustu fatlaðs fólks

Smári Ólafsson skrifar
Um áramótin verða umtalsverðar breytingar á akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin á svæðinu, utan Kópavogs, hafa gert með sér samkomulag um sameiginlega akstursþjónustu og er Strætó falin umsýsla með rekstrinum en allur akstur verður framkvæmdur af einkaaðilum.

Þannig munu allir á höfuðborgarsvæðinu sem þurfa á þjónustunni að halda hafa aðgang að sömu þjónustu óháð því í hvaða sveitarfélagi þeir búa. Strætó hefur annast ferðaþjónustu fatlaðs fólks í Reykjavík frá árinu 2001 en fram til þessa hafa sveitarfélög skipulagt sína þjónustu sjálf.

Aukinn sveigjanleiki og öryggi

Markmiðið með þessum breytingum er að tryggja notendum bæði sveigjanlegri og öruggari þjónustu en áður. Til þess að vinna að því marki munu allir notendur akstursþjónustunnar nú geta pantað sér ferðir með tveggja klukkustunda fyrirvara í stað eins sólarhrings áður auk þess sem þjónustuver Strætó verður opið mun lengur en áður. Þannig verður þjónustan sveigjanlegri fyrir notendur. Einnig er notendum boðið upp á að panta ferðir eftir mætingartíma í stað komutíma. Þá verður bílafloti akstursþjónustunnar endurnýjaður í þeim tilgangi að auka enn frekar öryggi notenda.

Gott samstarf mikilvægt

Notendur akstursþjónustunnar eru rúmlega tvö þúsund og farnar eru milli sjö og átta þúsund ferðir í hverri viku. Akstursþjónustan er því umfangsmikil og mikilvæg þjónusta sem snertir marga.

Til þess að tryggja að breytingarnar gangi vel fyrir sig leggur Strætó áherslu á að að vanda vel til verka, byggja upp traust og eiga gott samstarf við hagsmunasamtök notenda þjónustunnar. Skipaður hefur verið samráðshópur með fulltrúum frá öllum hagsmunaaðilum. Hlutverk hópsins er að fylgjast með framkvæmd þjónustunnar og fjalla um atriði sem betur mega fara. Strætó fagnar öllum ábendingum um þjónustuna, allar athugasemdir eru skráðar, teknar til skoðunar og svarað.

Strætó hefur annast akstursþjónustu fatlaðs fólks í Reykjavík í rúman áratug með góðum árangri. Við vonumst til að sú reynsla skili sér í framtíðaruppbyggingu á þessari þjónustu á öllu höfuðborgarsvæðinu til hagsbóta fyrir notendur hennar.




Skoðun

Sjá meira


×