Viðskipti innlent

Orðlaus yfir vaxtahækkun Gildis lífeyrissjóðs

Haraldur Guðmundsson skrifar
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, gerir ráð fyrir að vaxtahækkun Gildis verði rædd á næsta stjórnarfundi sambandsins síðar í vikunni.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, gerir ráð fyrir að vaxtahækkun Gildis verði rædd á næsta stjórnarfundi sambandsins síðar í vikunni.
„Ég tel þessa ákvörðun óskiljanlega og er satt að segja orðlaus,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda (LS), um ákvörðun Gildis lífeyrissjóðs um að hækka vexti á sjóðfélagalánum úr 3,1 prósenti í 3,35 prósent á næsta gjalddaga.

„Nú er Seðlabankinn búinn að lækka stýrivexti í tvígang og bankarnir hafa fylgt á eftir og því er þessi ákvörðun illskiljanleg,“ segir Örn.

Hann segir félagsmenn LS ósátta við ákvörðun stjórnenda lífeyrissjóðsins og að einn þeirra hafi krafist þess að ákvörðunin yrði „tafarlaust dregin til baka og sjóðfélagar sem hlut ættu að máli beðnir afsökunar á áreitinu“.

„Í prósentuhækkun er þetta átta prósent. Það eru fulltrúar frá launþegum og Samtökum atvinnulífsins í stjórn sjóðsins og þessir aðilar standa að þessari hækkun stuttu eftir að þing ASÍ kvartaði yfir of háum vöxtum í þjóðfélaginu.“

Harpa Ólafsdóttir, stjórnarformaður Gildis, gefur lítið fyrir gagnrýni Arnar.

„Vextirnir eru með því allra lægsta sem gerist á markaðinum en við þurfum náttúrulega að huga að því að það sé verið að gæta hámarksávöxtunar sjóðfélaga. Þetta eru hins vegar breytilegir vextir og þessi ákvörðun var tekin áður en stýrivextir voru lækkaðir en framkvæmd hennar tók lengri tíma en við höfðum áætlað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×