Lífið

Syngur með Alexander Ryback í HM lagi

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Jón hlakkar mikið til þess að fara út til Katar til að taka þátt í flutningi HM-lagsins.
Jón hlakkar mikið til þess að fara út til Katar til að taka þátt í flutningi HM-lagsins. Vísir/Valli
„Þetta kom allt voðalega skjótt upp. Ég var fríi í Orlando með fjölskyldunni þegar haft var samband við mig og ég beðinn um að taka þátt í þessu. Það var á föstudegi og á mánudeginum vorum við komin til Madríd,“ segir Jón Jónsson tónlistarmaður.

Hann var óvænt beðinn um að syngja í HM-laginu fyrir heimsmeistaramót karla í handbolta sem fer fram í Katar í janúar. „Ísland kemst óvænt inn á HM þarna á föstudeginum og svona tíu mínútum síðar fékk ég tölvupóst frá einhverri píu í LA sem er tónlistarráðgjafi og bað mig að vera með. Þá hafði hún einhvern veginn fundið mig á netinu og fannst ég kjörinn í þetta verkefni,“ segir Jón.

Lagið heitir Live it, Win it og verður frumflutt þann 18. desember. „Ég var svo bara mættur til Madríd þarna á mánudeginum, allt í einu kominn í eitthvað risa stúdíó og búinn að eignast tvo nýja vini, einhvern Svía og Frakka,“ segir hann, en í laginu syngja fulltrúar frá hverri þjóð sem tekur þátt í mótinu eða alls 24.

„Þetta eru allt stjörnur í sínum löndum og gaman að segja frá því að þarna var mættur enginn annar en Alexander Ryback fyrir hönd Hvíta-Rússlands. Það vita ekki allir að hann er Hvítrússi en ekki Norðmaður,“ segir Jón, sem heldur út til Katar í janúar til þess að taka þátt í flutningi á laginu við setningarathöfn mótsins.

„Það verður áhugavert að fara þangað, þetta er allt annað en það sem við þekkjum, enda ein ríkasta þjóð heims miðað við höfðatölu,“ segir hann. Það verður einnig sérstaklega spennandi fyrir popparann að fara út, þar sem mágur hans er að spila á mótinu. „Þeim úti fannst það alveg hreint magnað, að maður tvíburasystur minnar (Ásgeir Örn Hallgrímsson) væri í liðinu,“ segir Jón.

Það er annars nóg að gera hjá Jóni þessa dagana því hann gaf út plötuna Heim á dögunum og er á fullu að undirbúa tónleika í Austurbæjarbíói 19.desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×