Innlent

Ráðgjafinn verði hjá Fangelsismálastofnun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Litla-Hraun Páll Winkel fangelsismálastjóri segir menntun mikilvæga fyrir betrun fanga.
Litla-Hraun Páll Winkel fangelsismálastjóri segir menntun mikilvæga fyrir betrun fanga. fréttablaðið/heiða
Páll Winkel fangelsismálastjóri telur rétt að Fangelsismálastofnun sjái um námsráðgjöf fyrir fanga í stað þess að hún sé á borði Fjölbrautaskóla Suðurlands.

„Það er fullkomlega eðlilegt að þetta sé inni á borði Fangelsismálastofnunar sem sér um starfsemi allra fangelsa í landinu, sem eru sex. Það er ekki bara eitt fangelsi. Við myndum gera okkur grein fyrir því og myndum ekki skera niður stöðu námsráðgjafa úr 100 prósentum í 50 prósent,“ segir Páll Winkel spurður um málið.

Fjárskortur hefur valdið því að staða námsráðgjafa fanga var í haust skorin niður úr 100 prósent starfsgildi í 50 prósent. Guðrún Kristjánsdóttir, aðferðafræðikennari við Háskóla Íslands, sagði við Fréttablaðið fyrr í desember að þetta hefði mikil áhrif á nám fanganna. Síðan greindi Fréttablaðið frá því að Helga Lind Hjartardóttir, námsráðgjafi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga, veitti föngum á Kvíabryggju ráðgjöf í frítíma. „Ég kem við hjá þeim á leiðinni heim eftir vinnu,“ sagði Helga Lind við Fréttablaðið.

Páll Winkel
Páll Winkel segir að áður en staða námsráðgjafa hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands var skorin niður hafi hún gefið föngum mikið. „Þetta er eitt það mikilvægasta sem til er þegar verið er að tala um að reyna að undirbúa fanga undir það að fara út í samfélagið aftur. Það er menntun og nám, í hvaða formi sem það er,“ segir hann. „Ég held að það séu allir sammála um það, hvort sem það eru starfsmenn í fangelsiskerfinu eða fangar, að það þarf að tryggja að lágmarki 100 prósent stöðu í þetta verkefni,“ segir Páll.

Staða námsráðgjafa var rædd á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í gær. Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður nefndarinnar, segir að þingið hafi í gegnum tíðina samþykkt fjárveitingar til að manna stöðuna.

„Svo er samningur við Fjölbrautaskóla Suðurlands um að sinna þessu verkefni og þess vegna tel ég að það sé alveg ljóst að þessu á að sinna af hálfu skólans,“ segir Unnur Brá. Hún segir mikilvægast að innanríkisráðuneytið og menntamálaráðuneytið fari saman yfir það hvernig þessi þjónusta verði tryggð til framtíðar. „En ég er ekki fylgjandi því að taka þessa fjármuni af fjölbrautaskólanum og flytja þá til Fangelsismálastofnunar, vegna þess að ég tel mikilvægt að nota þá reynslu sem er komin á hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands og nota þá beintengingu sem er komin við menntakerfið,“ segir Unnur Brá.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.