Skoðun

Gjöf sem breytir öllu

Bjarni Gíslason skrifar
Farsæld er meginmarkmið með öllu starfi Hjálparstarfs kirkjunnar bæði á Íslandi og í verkefnum erlendis. Mannréttindi og virkni, þátttaka og valdefling eru ráðandi hugtök í starfinu. Við erum upptekin af styrk, hæfileika og getu einstaklinga og samfélaga, til betra lífs.

Þegar einstaklingur kemur til okkar segjum við ekki „hvað getum við gert fyrir þig?“ heldur „hvaða væntingar hefur þú, hverjir eru möguleikar þínir á að bæta stöðu þína, á hvaða sviði ert þú sterk/ur?“ Á þessum grunni vinnum við með einstaklingnum að bættri stöðu.

Bætti heilsu og menntun

Sama á við um einstaklinga og samfélög í verkefnalöndum okkar. Í Eþíópíu var byrjað á samtali við fólkið, haldnir voru fundir í þorpum þar sem allir eru velkomnir og sérstaklega hugað að því að láta vita að konur eru velkomnar. Rætt var um stöðu samfélagsins hvar helstu möguleikar til betra lífs og sterkara samfélags liggi. Fólkið sjálft greindi og ákvað hvað væri brýnast og forgangsraðaði, skilgreindi styrkleika sína, hvað það gat séð um sjálft og hvar helst þyrfti utanaðkomandi stuðning. Í samstarfi við þorpsleiðtoga og staðaryfirvöld var síðan verkáætlun og skipulag verkefnisins ákveðin. Betri aðgangur að vatni, bætt fæðuöryggi, bætt heilsa og menntunarmöguleikar voru forgangsmál sem sett voru á oddinn í verkefni Hjálparstarfsins í Jijiga-héraði í Austur-Eþíópíu. Fólkið sjálft leggur mikið á sig, grefur fyrir vatnsþróm og brunnum en stuðningurinn felst í að útvega sérfræðiþekkingu, verkfæri, sement og verktaka sem fóðra brunna og vatnsþrær svo þær endist árum saman. Verkefnið hefur verið í gangi síðan 2007 og mörg þúsund manns hafa notið góðs af. Með hreinu vatni breytist allt! En íbúar Jijiga-héraðs eru um 320.000 á stóru, hrjóstrugu svæði og enn búa margir við mikinn vatnsskort. Við getum með þeim unnið að bættri stöðu og farsælu lífi. Vilt þú vera með okkur í þessu verki? Getur þú bætt við einni jólagjöf?

Þú getur greitt valgreiðslu í heimabanka eða lagt inn á söfnunarreikning: 334-26-50886 kt. 450670-0499. Gjöf sem gefur vatn er gjöf sem breytir öllu.




Skoðun

Sjá meira


×