Skoðun

Tími mannanafnalaga liðinn

María Margrét Jóhannsdóttir skrifar
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingu á lögum um mannanöfn. Slíkt frumvarp er löngu tímabært enda hafa lögin orðið mörgum einstaklingum til ama. Til eru dæmi þess að barni sé neitað um að heita í höfuðið á afa sínum og að stúlka þurfi að leita alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu til þess að fá að heita nafni sínu. Þá hefur kona ein lengi barist fyrir því að fá að heita hinu virðulega nafni Kona en ekki fengið því framgengt.

Þá virða íslensk mannanafnalög ekki kynfrelsi fólks en í núgildandi lögum er stúlkum skylt að bera kvenmannsnöfn og strákum karlmannsnöfn. Slíkt fyrirkomulag er mikil tímaskekkja. Það á ekki að neyða fólk til þess að vera „merkt” einu kyni eða öðru. Körlum á að vera frjálst að bera kvenmannsnöfn, konum karlmannsnöfn og svo á öllum að vera frjálst að bera hlutlaus nöfn. Talsmenn laganna vísa oft til velferðar barna sem rök fyrir sérstakri mannanafnalöggjöf en þá má benda á að við Íslendingar erum svo lánsamir að hafa þar til gerð barnaverndarlög sem geta gegnt því hlutverki með miklum ágætum að standa vörð um réttindi barna.

Lög eiga að vera hófleg og valda fólki sem minnstum ama. Mannanafnalög hafa ekki uppfyllt þetta skilyrði og þeim þarf að breyta. Þingheimur þarf að standa vörð um mannréttindi fólks en íhlutun ríkisvalds í val einstaklinga á nafni hlýtur að vera brot á mannréttindum enda er réttur til nafns hverjum manni mikilvægur. Vonandi er tíminn kominn sem mannanafnalögum verður breytt.




Skoðun

Sjá meira


×